Guðsþjónustur eru á sunnudögum kl. 11:00 í Vídalínskirkju, fjölskylduguðsþjónusta fyrsta sunnudag í mánuði yfir vetrarmánuðina.

Fyrsta sunnudag í mánuði er messa í Garðakirkju kl. 11:00 yfir vetrartímann

Yfir sumarmánuðina fer helgihaldið að mestu eða öllu leyti fram í Garðakirkju.

Á hverjum sunnudegi yfir vetrarmánuðina er sunnudagaskóli í Urriðaholtsskóla kl. 10:00.  Í Vídalínskirkju er sunnudagaskóli kl. 11:00 – nema fyrsta sunnudag hvers mánaðar þegar eru fjölskylduguðsþjónustur.

Þá sunnudaga sem sunnudagaskólinn starfar koma börnin til messu með foreldrum en fara síðan til skólastarfs með leiðbeinendum skömmu eftir upphaf messu.

Bænastarf er hverjum söfnuði afar mikilvægt og yndislegt þegar fólk finnur fyrir innri köllun til bænalífs og ekki síst til fyrirbæna fyrir mönnum og málefnum.
Boðið er upp á þrjár samverur í viku þar sem kyrrð og samtal við Guð er megintilgangurinn.
Kyrrðar- og íhugunarstund er á þriðjudögum í Vídalínskirkju kl. 12:00. Þá er gengið inn í þögnina en kl. 12:10 fyllist kirkjuskipið af tónlist. Sá flutningur stendur í tuttugu mínútur með þremur hléum, en þá eru flutt ritningarvers eða ljóð. Stundin endar á bæn, söng og blessunarorðum. Á meðan tónlist er leikin í kyrrðarstundinni er hægt að ganga milli bænastöðva í kirkjuskipinu. Þar er hægt að dvelja við hugsanir sínar og leyfa hinni lífgefandi nærveru Guðs að umvefja sig.
Að lokinni kyrrðarstund kl. 12:30 er hægt að kaupa súpu og brauð í safnaðarheimilinu á vægu verði.
Bænahringur kvenna er á þriðjudögum kl. 16:30 í Vídalínskirkju. Bænarefni eru skrifuð niður á staðnum.
Bæna- og biblíulestrarhópur karla er á þriðjudögum kl. 20:00 í Vídalínskirkju.
Það eru allir innilega velkomnir til þátttöku.

Reglulegt helgihald er í Ísafold, dvalarheimili aldraðra í Garðabæ, síðasta fimmtudag í mánuði og á stórhátíðum. Samverustund er á Vífilsstöðum fyrsta fimmtudag í mánuði kl. 13:00. Einnig eru batamessur reglulega.