Vídalínskirkja
Vídalínskirkja var vígð 30. apríl 1995 af herra Ólafi Skúlasyni biskupi, en kirkjan er kennd við Jón biskup Vídalín í Görðum. Hann var prestur þar frá 1696 til 1698 er hann var vígður biskup að Skálholti. Því embætti gegndi hann allt til dauðadags árið 1720.Jón Vídalín var án efa einn merkasti biskup sem setið hefur Skálholt. Vídalínspostilla, sem hann samdi, kom út árið 1718. Hún er sú húslestrarbók sem mest var notuð hér á landi á 18. og 19. öld. Þegar ákveðið var að reisa nýja kirkju í Garðabæ varð að ráði að nefna hana Vídalínskirkju í minningu Jóns biskups Vídalíns, sem er einn merkasti íbúi prestakallsins fyrr og síðar.
Vídalínskirkja er hönnuð af Skúla H. Norðdahl arkitekt, en hann hannaði einnig safnaðarheimilið sem byggt var fyrr. Grunnflötur fyrstu hæðar er 502 fm en samtals er grunnflötur byggingarinnar 746 fm og rúmmál hennar 5044 rúmmetrar. Kirkjan rúmar allt að 300 manns í sæti, en unnt er að opna inn í safnaðarheimilið og geta þá yfir 500 manns verið við athöfn.
Kirkjuklukkurnar þrjár eru gerðar í Bretlandi. Áletrun á klukkunum er þessi: O Rex Gloriae Veni Cum Pacem (Konungur dýrðarinnar, kom með friði). Stærsta klukkan er 700 kg. (tónn D), miðklukkan er 400 kg. (tónn Aís) og sú minnsta 280 kg. (tónn C).
Altari, hannað af Skúla H. Norðdahl. Útskurður framan á altarinu er fangamark Krists, skorið út af Sveini Ólafssyni.
Ljósberinn við vesturvegg Vídalínskirkju er hannaður og gerður af Gunnsteini Gíslasyni. Ljósberinn og málverkið af Jesú eftir Baltasar eru gjafir til minningar um Einar og Guðrúnu Farestveit, gefnar af afkomendum þeirra.
Hlutverk Ljósberasjóðs er að styðja við börn og unglinga í Garðabæ í samræmi við samþykktir sjóðsins.
Reikningsnúmer Ljósberasjóðsins er 0318-22-000742
Kristsmynd á vesturvegg yfir ljósbera er gerð af myndlistarmanninum Baltasar Samper. Ljósberinn og málverkið af Jesú eftir Baltasar eru gjafir til minningar um Einar og Guðrúnu Farestveit, gefnar af afkomendum þeirra.
Hlutverk Ljósberasjóðs er að styðja við börn og unglinga í Garðabæ í samræmi við samþykktir sjóðsins.
Glerlistaverk, sem ber nafnið Eining og sýnir þrjá krossa, var gert af hjónunum Sören Larsen og Sigrúnu Einarsdóttur. Verkið var afhent Garðasókn 21. júní 2006 og sett upp í Vídalínskirkju.
Helgiklæði eru flest hönnuð og unnin af listakonunum Hrafnhildi Sigurðardóttur og Guðrúnu Vigfúsdóttur.
Kaleikur, altarisstjakar, oblátuskál og silfurkross. Þessir munir voru allir hannaðir af Pétri Tryggva Hjálmarssyni, gullsmið. Munirnir hafa verið sýndir víða og hlotið einróma lof fyrir fallega hönnun.