Gospelkór Jóns Vídalíns er skemmtilegt og öflugt tónlistarstarf fyrir ungt fólk. Gospelkórinn heldur tónleika að lágmarki tvisvar á ári bæði fyrir jólin og á vorin. Einnig kemur kórinn fram í helgihaldi Vídalínskirkju og við ýmis mikilvæg tilefni hér og þar, eins og t.d. í tilefni af afmæli Garðabæjar. Gospel kórinn hefur unnið fjölbreytt verkefni yfir árin og setti til að mynda upp söngleikinn Godspell eftir Stephens Schcwartz vorið 2016 í Vídalínskirkju, en það er í fyrsta sinn á íslandi sem þessi söngleikur er fluttur í heild sinni. Kórinn hefur einnig gefið út geisladisk og sungið inn á Disney bíómynd. Að auki hefur kórinn sungið reglulega á stórtónleikum í Eldborg og farið utan í tónleikaferðir.
Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur í Garðabæ stofnaði Gospelkór Jóns Vídalíns árið 2006 og hefur verið verkefnastjóri kórsins frá upphafi. Kórinn heitir eftir Jóni Vídalín biskup sem fæddist á Garðaholtinu og varð einn merkasti maður 17. aldar. Fyrsti kórstjórinn var Þóra Gísladóttir tónlistarkennari og söngkona en eftir henni komu María Magnúsdóttir söngkona og Ingvar Alfreðsson tónlistarmaður. Davíð Sigurgeirsson tónlistarmaður hefur stýrt kórnum síðan 2014. Kórinn hefur tvisvar fengið hvatningarverðlaun Garðabæjar.
Kórinn hefur einnig verið samstarfsverkefni Garðasóknar og FG í gegnum árin, en þátttaka í kórnum gefur einingar við skólann.
Starfið er þátttakendum að kostnaðarlausu.
Opin þriðjudaga-föstudaga frá 10-15,
Kirkjulundi 3
210 Garðabæ
Garðar, Álftanesi
Garðar, Álftanesi