Garðakirkja í Görðum á Álftanesi er sóknarkirkja Garðasóknar. Kirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í Vilkins-máldaga frá 1397, þar sem skráðar eru allar eignir kirkna í Skálholts- biskupsdæmi, vekur það sérstaka athygli, að eignir Garðakirkju eru þá þegar orðnar ótrúlega miklar, og það svo, að landaeignir hennar munu ekki hafa aukist svo neinu næmi eftir það. Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.

Í Görðum er fæddur séra Jón Þorkelsson Vídalín (1666-1720), sem var biskup í Skálholti 1698-1720. Jón biskup Vídalín samdi “Guðrækilegar predikanir yfir öll hátíða og sunnudaga guðspjöll” og gaf út í húspostillu sinni, sem prentuð var fyrst á Hólum í Hjaltadal 1718-20. Árið 1995 var Vídalínspostilla gefin út í fimmtánda sinn, og hefur sú bók lengst, ásamt Passíusálmunum, dugað íslensku þjóðinni til guðrækilegrar iðkunar, allt þar til að húslestrar lögðust af eftir að Ríkisútvarpið tók til starfa og útvarpsmessur hófust árið 1930.

Árið 1875 vísiterar Dr. Pétur Pétursson biskup í Görðum. Þá stóð þar gömul timburkirkja í miðjum gamla hluta kirkjugarðsins og svo hrörleg orðin, að hún verður ekki talin nothæf öllu lengur að dómi biskups. Séra Þórarinn Böðvarsson, sóknarprestur í Görðum og prófastur í Kjalarnesprófastdæmi, hvatti til þess, að kirkjan yrði endurreist en ágreiningur varð um hvort byggja skyldi í Görðum eða í Hafnarfirði og náðist ekki samkomulag. Séra Þórarinn lét því árið 1879 byggja nýja kirkju í Görðum á eigin kostnað. Hann velur kirkjunni nýjan stað ofar og hærra en aðrar Garðakirkjur höfðu áður staðið og ákvað, að þessi nýja kirkja yrði gjörð af steini og var grjót til hennar tekið úr holtinu fyrir ofan kirkjuna. Þórarinn leggur allan sinn metnað í það, að kirkjan verði svo vönduð og vegleg sem verða má. Til marks um hve vel var vandað til alls, sem að kirkjusmíðinni laut, má geta þess, að þegar Garðakirkja var rifin, nær 60 árum síðar, sást hvergi ryðblettur á þakjárni hennar, og hafði þakið þó aldrei verið málað.

Kirkjuhúsið var hlaðið úr tilhöggnum steini, eins og fyrr er sagt.. Blámálað hvolfþak var í ferhyrndum reitum með gylltri stjörnu í hverjum reit og þótti kirkjan eitt glæsilegasta guðshús landsins á þeim tíma. Ekki hefur fundist skráð hvenær kirkjan var vígð, en trúlega var það á annan í hvítasunnu 1880.

Eftir vígslu nýrrar kirkju í Hafnarfirði hinn 20. desember 1914 er Garðakirkja lögð af sem sóknarkirkja, en kirkjulegar athafnir fóru þó fram í Garðakirkju eftir það, enda sat sóknarpresturinn, séra Árni Björnsson, prestsetrið að Görðum og flutti ekki til Hafnarfjarðar fyrr en um haustið 1928. Séra Árni kom að Görðum frá Reynistað í Skagafirði árið 1913. Hann varð prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 1916. og þjónaði Garðaprestakalli til dauðadags 26. mars 1932.

Útfarir fóru fram öðru hverju frá Garðakirkju þegar jarðsett var í Garðakirkjugarði, einnig eftir að kirkjan var seld í nóvember 1917. og fór síðasta athöfnin fram í maí 1937.
Eftir byggingu Hafnarfjarðarkirkju var söfnuðurinn í fjárþröng. Á aðalsafnaðarfundi 31. október 1915 var smþykkt einróma að selja Garðakirkju og í apríl næsta ár er auglýst eftir tilboðum. Þrjú tilboð bárust og voru opnuð á sóknarnefndarfundi 10. maí. Hæsta tilboðið reyndist sautján hundruð krónur. Horfið var frá því að taka nokkru tilboði þar eð fundinum barst eindregin ósk frá herra Þórhalli Bjarnarsyni biskupi, sem lofaði í þess stað tvö þúsund króna láni úr almennum kirkjusjóði með veði í Garðakirkju. Sú orðsending fylgdi frá biskupi, “að hann mætti ekki til þess hugsa að hið fornmerka kirkjuhús væri niður rifið, og það því fremur, sem Garðakirkja væri minnisvarði þjóðhöfðingjans, Þórarins heitins Böðvarssonar, sem hafði byggt hana og lagt til hennar mjög stóran skerf úr eigin vasa”. Á safnaðarfundi 29. október 1916 eru á ný flutt eindregin tilmæli frá Þórhalli biskupi um, að frestað yrði enn að selja Garðakirkju. Biskup hafði þá sótt um heimild stjórnarráðsins um að Garðakirkja yrði keypt af Thorchillisjóði er síðar kæmi þar upp “barnauppeldisstofnun”. Áður en stjórnarráðið svaraði þessu erindi lést biskup hinn 15. desember 1916. Hinn 21. maí 1917 ritar sóknarnefnd eftirmanni hans, herra Jóni Helgasyni biskupi langt bréf með beiðni um að málið yrði tekið upp að nýju en sú málaleitan bar engan árangur. Loks kemur að því, að Garðakirkja er auglýst til sölu öðru sinni. Hinn 11. nóvember 1917 eru tvö tilboð opnuð, hið hærra kr. 2.000 og er báðum tilboðum hafnað. Á fundinn voru komnir þeir Ágúst Flygenring og Einar Þorgilsson og tjá sóknarnefnd að þeir og átta menn aðrir hafi bundist samtökum um að kaupa Garðakirkju, svo að hún yrði ekki rifin niður, og var tilboð þeirra kr. 2.800. Sóknarnefnd samþykkti tilboð þeirra. Þeir aðrir, sem að kaupunum á Garðakirkju stóðu, voru: Carl Proppé, Christian Zimsen, Gunnar Egilsson, Jes Zimsen, Jón Einarsson, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason og Þórarinn Egilsson
Árið 1938 var Garðakirkja orðin mjög illa farin og turn hennar að falli kominn. Hvorki þeir, sem eftir lifðu af eigendum hennar né sóknarnefnd töldu sér fært að gera á kirkjunni bráðnauðsynlegar endurbætur og fór svo að kirkjan var rifin næsta ár.

Svo var komið um miðja tuttugustu öldina að eftir stóð af Garðakirkju tóftin ein, þak- og gluggalaus og hinir hlöðnu steinveggir Þórarins Böðvarssonar óvarðir fyrir veðri og vindum. Kom jafnvel til tals að brjóta þá niður og flytja grjótið í fyllingu í Hafnarfjarðarhöfn. Því menningarslysi varð þó forðað og komu konurnar í nýstofnuðu kvenfélagi Garðahrepps þar til sögunnar og ákváðu að hefjast handa og endurreisa Garðakirkju. Þær máttu ekki til þess hugsa, að þessi forni og merki kirkjustaður legðist af. Garðar höfðu skipað virðingarsess í íslenskri kirkjusögu um aldir. Meðal fyrstu verkefna Kvenfélags Garðahrepps var endurreisn Garðakirkju. Á fundi félagsins hinn 6. október 1953 voru þrjár konur, þær Úlfhildur Kristjánsdóttir, Dysjum, Ásta G. Björnsson, Reynihlíð og Ólafía Eyjólfsdóttir, Hausastöðum, kosnar í nefnd til að vinna að þessu mikla áhugamáli. Á fundi 11. október 1955 var ákveðið að bæta tveimur konum í nefndina og hlutu kosningu Sigurlaug Jakobsdóttir í Hraunsholti og Helga Sveinsdóttir í Görðum.
Á aðalfundi Kvenfélags Garðahrepps 2. febrúar 1954 var lagt fram svohljóðandi afsalsbréf fyrir kirkjunni, eða því sem eftir stóð af henni. “Sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju ánafnar Kvenfélagi Garðahrepps fullan eignar- og umráðarétt á veggjum Garðakirkju.” Á sóknarnefndarfundi í Hafnarfirði hinn 25. júní 1956 leggur prófasturinn, séra Garðar Þorsteinsson, fram beiðni Kvenfélags Garðahrepps um að fá að sjá um endurreisn Garðakirkju. Fenginn var arkitekt, Ragnar Emilsson til þess að teikna endurgerð kirkjunnar. Hann jók við turni vestan við hina hlöðnu veggi, sem fyrir voru. Í turninum var kyndiklefi í kjallara, anddyri með litlu skrúðhúsi og snyrtingu á fyrstu hæð, á annari hæð er söngloft, þ.e. aðstaða fyrir kirkjukór, og á þeirri hæð var byggður söngpallur inn í kirkjuna. Af sönglofti liggur hringstigi upp á milliloft þar sem geymdir eru fermingarkyrtlar o.fl. Af milliloftinu liggur svo hringstiginn áfram upp á klukknaloft, þar sem kirkjuklukkurnar eru, efst í risinu.

Byggingarmeistari var Sigurlinni Pétursson. Hann lét flytja líparít frá Drápuhlíðarfjalli við Stykkishólm, steypti líparítið í hellur, sem hann lagði síðan um kirkjugólfið. Kvenfélagskonurnar unnu að byggingu kirkjunnar með óbilandi atorku og dugnaði á næstu árum og var Garðakirkja reist úr rústum fyrir þeirra atbeina og endurvígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966.

Fegrun umhverfis kirkjunnar 2006.
Haustið 2005 og sumarið 2006 var unnið að endurgerð aðkomusvæðis vestan Garðakirkju. Flötin framan við kirkjuna var hækkuð og þar gert hellulagt torg afmarkað með hlöðnum veggjum. Breytingin fól m.a í sér að leggja af tröppur við innganginn og bæta þar með aðgengi allra að kirkjunni. Svæðið hlaut viðurkenningu umhverfisnefndar Garðabæjar árið 2006, fyrir smekklega útfærslu og velheppnaða framkvæmd. Aðkomusvæðið var hannað hjá Landslagi ehf, af Dagnýju Bjarnadóttur landslagsarkitekt í samstarfi við Eið Pál Birgisson.
(Heimildir: Afmælisrit, Kvenfélag Garðabæjar 10 .ara – mars 1963, 30 ára 1983 og 50 ára 2003. Sigurlaug Árnadóttir, Morgunblaðið 21. jan. 1993. Viðtöl við séra Braga Friðriksson og Halldóru Jónsdóttur sóknarnefndarmann og Sigurbjörn Árnason kirkjugarðsvörð og Dagnýju Bjarnadóttur landslagsarkitekt.)

Yfirlit um prófasta í Görðum frá 1872 til 1997.

Séra Þórarinn Böðvarsson. F. 3. maí 1825, d. 6. maí 1895 í Görðum á Álftanesi.
Cand theol 11. ágúst 1849. Vígður aðstoðarprestur til föður síns að Melstað 12. ágúst 1849. Veittur Vatnsfjörður 9. mars 1854. Garðar á Álftanesi 1. febrúar 1868. Skipaður prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 3. apríl 1872.

Séra Jens Pálsson. F. 1. apríl 1851 í Dagverðarnesi á Skagaströnd, d. 28. nóvember 1912 í Hafnarfirði.
Cand. theol. 3. september 1872. Vígður aðstoðarprestur föður síns að Arnarbæli 2. nóvember 1873, veittir Þingvellir 11. janúar 1879, Útskálar 27. júlí 1886, Garðar á Álftanesi 26. september 1895. Skipaður prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 22. nóvember 1900 frá 1. desember s.á.

Séra Árni Björnsson. F. 1. ágúst 1863 í Höfnum á Skaga, d. 26. mars 1932 í Hafnarfirði.
Cand. theol. 24. ágúst 1887. Veitt Reynistaðarprestakall 25. október 1887, vígður 6. nóvember s. ár, Garðar á Álftanesi 30. júlí 1913 frá fardögum s. ár. Skipaður prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 6. júní 1916. Sat í Hafnarfirði frá 1928.

Séra Garðar Þorsteinsson. F. 2. desember 1906 á Akureyri. Hann lést laugardaginn fyrir páska 14. apríl 1979 í Hafnarfirði.
Cand. theol. 13. júní 1931. Veitt Garðaprestakall á Álftanesi 18. júní 1932, vígður 23. júní 1932. Skipaður prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 14. maí 1954 frá 1. maí.

Séra Bragi Friðriksson. F. 15. mars 1927 á Ísafirði.
Cand. theol. 30. maí 1953. Kallaður til prestsþjónustu í Lundar-Langruth-prestakalli í Manitoba 1953, vígður 4. október sama ár. Kallaður til Gimli-prestakalls í Manitoba í júlí 1955 frá 1. október s. ár. Kom heim haustið 1956. Settur til prestsþjónustu meðal íslendinga á Keflavíkurflugvelli frá 1. janúar 1964, veitt Garðaprestakall á Álftanesi 20. maí 1966 frá 1. júní s. ár, en þjónaði jafnframt Keflavíkurflugvallarprestakalli til loka júlí. Skipaður prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 15. apríl 1977. Séra Bragi lét af störfum fyrir aldurs sakir 1. júní 1997.

Innskot:
Séra Þorsteinn Briem. F. 3. júlí1885 á Frostastöðum í Blönduhlíð, d. 16. ágúst 1949 í Reykjavík.
Cand. theol. 20. júní 1908. Vígður 11. júlí 1909 sem aðstöðarprestur Jens Pálssonar að Görðum á Álftanesi. Veitt Grundarþing 9. júní 1911, Garðar á Álftanesi 8. apríl 1913, fékk leyfi til að vera kyrr í Grundarþingum 16. maí s. á. Prestur í Görðum á Akranesi frá 1921. Skipaður prófastur í Borgarfjarðarprófastsdæmi 10. október 1931 frá 1. s.m.
(Samantekið í janúar 2009
Sigurður Björnsson, verkfræðingur.)

Myndir af Garðakirkju.

Hátíðarræða flutt í Garðakirkju 6. mars 2016.
Við hátíðarguðsþjónustu, sem haldin var þann 6. mars af tilefni 50 ára vígsluafmæli Garðakirkju, fluttu hjónin Steinar J. Lúðvíksson og Gullveig Sæmundsdóttir afar fróðlega og skemmtilega hátíðarræðu um sögu Garðakirkju.

Hér að neðan kemur ræðan í heild sinni:
Hér erum við stödd í helgu húsi á sögufrægum stað. Senn eru liðin 50 ár frá því kirkjan okkar hér í Görðum var endurreist og endurvígð til þeirra mikilvægu verkefna sem unnin eru í kristilegu starfi í bæjarfélaginu okkar. Garðakirkja er eitt af kennileitum bæjarfélagsins. Kennileiti sem okkur þykir einkar vænt um og vístum til með virðingu og stolti. Að stofni til er kirkjubyggingin senn 140 ára sem telst hár aldur í byggingasögu landsins. Hún var á sínum tíma reist af miklum stórhug og þótti þá ein glæsilegasta kirkjubygging landsins.

Á þeim tímamótum að minnst er 50 ára endurvígslu Garðakirkju er ekki nmea eðlilegt að hugurinn reiki til fyrra tíma og hann sé borinn saman við þann tíma sem við lifum nú. Það er undarlegt að hugsa til þess að það eru ekki nema nokkrir mannsaldrar síðan að næfellt fjórðungur íslensku þjóðarinnar var á flótta. Voru flóttamenn í eigin landi og að á tveimur árum fórst nærfellt fimmtungur þjóðarinnar af fátækt og hungri. Miðað við það alsnæktaborð sem við sitjum nú við er hollt fyrir okkur að minnast þess að hér á þessu svæði bjó kynslóð afa okkar og mönnu við það að vita ekki hvort til væri málungi matar næsta dag, – hvort unnt yrði að gefa börnunum eitthvað að borða þótt ekki væri nema þang eða fiskruður. Og vert er líka að geyma í minni að það eru innan við hundrað ár síðan hreppsnefnd Garðahrepps sat á rökstólum í þinghúsinu hérna á holtinu og freistaði þess að útdeila mat til nánast allra heimila í hreppnum. Það var ekki auðvelt hlutskipti, ekki síst vegna þess að þá vildi enginn sem átti veraldleg verðmæti lána þau Garðahreppi. Matargjafir sem Garðhreppingar fengu annars staðar frá björguðu miklu. Þær voru einkum frá byggðarlögum fyrir austan fjall sem endurguldu þar með að á hörmungartímunum miklu höfðu Álftnesingar tekið við mörgu flóttafólki sem kom austan að.

Á erfiðustu tímum í sögu byggðarinnar sótti fólk athvarf og skjól til kirkjunnar hér að Görðum. Hér leitaði það ekki aðeins huggunar og þeirrar vonar sem felst í guðstrúnni. Hér var samkomustaður þess – eini staðurinn þar sem fólk safnaðist saman og deildi skoðunum sínum og væntingum.

Þótt fátækt og erfiðleikar væru miklir hér á svæðinu hélt kirkjustaðurinn Garðar jafnan reisn sinni. Í gegnum tíðina urðu margir Garðaklerkar nafntogaðir og landsþekktir og höfðu mikil áhrif á samtíð sína. Enginn þó eins og Jón Vídalín sem fæddist og ólst upp hér. Var hér sóknarprestur í eitt ár en lengst af starfsævi sinnar biskup í Skálholti. Hér er ekki staður né stund til að fjalla um þann merka mann en aðeins sagt að enginn einn maður hefur haft eins djúpstæð áhrif á trúarlíf Íslendinga í langan tíma sem hann, auk þess sem hann lagði mikilvæg lóð á vogaskálar menntunar og uppbyggingar landsins á mörgum sviðum. Faðir Jóns, Þorkell Arngrímsson, sonur Arngríms lærða, var prestur hér í tvo áratugi. Hann var sagður lærðasti maður samtíðar sinnar – fyrsti Íslendingurinn sem lauk háskólanámi í læknisfræði og var einnig hámenntaður í jarðvísindum en mun aldrei hafa lokið námi í guðfræði. Marga aðra mætti nefna svo sem séra Jón Kráksson sem sat embættið í 50 ár, séra Guðlaug Þorgeirsson, séra Árna Helgason sem jafnan var nefndur „biskupinn í Görðum.“ Honum margstóð til boða biskupsdómur en afþakkaði jafnan, séra Helga Hálfdánarson sálmaskál, séra Þórarin Böðvarsson og séra Jens Pálsson. Og meðal merkra presta hér má vissulega líka nefna samtímamann okkar, séra Braga Friðriksson.

Fáum sögum fer af kirkjubyggingum í Görðum. Líklega hafa þær verið eins og víðast annars staðar á Íslandi, fyrst byggðar úr torfi og grjóti en síðar úr timbri. Ugglaust hefur það verið timburkirkja sem á sínum tíma fauk í ofvirði alla leið út á Svið. Vildi til að þar sat maður undir árum á báti sínum og sá svarta flyksu stefna til sín. Greip hann flyksunar og reyndist hún vera Garðakirkja. Lét hann sig ekki muna um að hengja hana aftan í bátinn er hann reri til lands og koma henni fyrir á grunninum. Ekki var kannski alveg að marka söguna, þótt góð væri, því sá er hana sagði var Vellygni Bjarni sem sjaldan gerði lítið úr afrekum sínum.

Þegar leið á 19. öldina tók byggðamynstrið hér á svæðinu verulegum breytingum. Með skútuútgerðinni myndaðist þéttbýli í Hafnarfirði og þá fóru að heyrast raddir um að sóknarkirkjan væri best komin þar. Hafnfirðingar þóttu latir að ganga illfæra leið út að Görðum til kirkjulegra athafna. Á sama tíma var kirkjan í Görðum orðin svo hrörleg að endurbygging var nauðsynleg. Þegar ekkert gerðist í málinu bauð séra Þórarinn Böðvarsson sókninni að byggja hér steinkirkju á eigin kostnað. Var það ekki eina stórgjöfin sem séra Þórarinn færði sveitarfélaginu þar sem hann og eiginkona hans Þórunn Jónsdóttur gáfu líka skóla – Flensborgarskólann – til minningar um son þeirra, Böðvar, sem þótti einstakur efnismaður en lést ungur, þegar hann var við nám í Lærða skólanum. Nýja kirkjan var reist á árunum 1878-1880. Hleðslugrjótið var tekið hér í Garðaholti en gífurleg vinna var að höggva það til. Kalkið sem notað var til að líma steinana saman var úr Esjunni, unnið í kalkofni sem stóð skammt frá Arnarhól. Ekki hafa fundist heimildir um vígsludag kirkjunnar en séra Bragi Friðriksson taldi líklegt að hann hefði verið hvítasunnudagur árið 1880.

Nú þarf að gera langa sögu stutta. Árið 1909 var ákveðið að byggja sóknarkirkju í Hafnarfirði og var hún vígð 20. desember árið 1914. Eftir stóð yfirgefin kirkja að Görðum sem nýbyggð var talin ein glæsilegasta kirkja á Íslandi. Nú laut hún allt í einu lögmálum yfirgefinna bygginga, – að láta smátt og smátt undan veðri og vindum og grotna niður. Árið 1938 var turn kirkjunnar rifinn svo og þak og gluggar. Eftir stóð gapandi steintóft sem enginn vissi hvað átti að gera við. Til stóð reyndar að rífa hleðsluna og nota sem uppfyllingu í hafnarmannvirki í Hafnarfirði en þegar á herti var slíkt ekki talið svara kostnaði. Úr varð að kirkjan var auglýst til sölu og barst í hana tilboð upp á tvö þúsund krónaru. Enn átti kirkjan sér velunnar. Nokkrir menn sem áttu rætur í Garðahverfinu yfirbuðu og keyptu rústirnar á 2.800 krónur.

Og árin liðu. Garðakirkja hafði verið traustlega byggð og steinhleðslan stóð eins og hún vildi sýna að hennar tími myndi koma. Og sá tími kom þegar konur í Garðahreppi tóku málin í sínar hendur. Kvenfélag Garðahrepps var stofnað 8.mars 1953 og var Úlfhildur Kristjánsdóttir, sem bjó að Dysjum, kjörin fyrsti formaður félagsins. Á undirbúningsfundi fyrir stofnunina lagði hún til að félagið beitti sér fyrir endurreisn kirkjunnar. Mæltist hugmynd hennar vel fyrir og var samþykkt á fundi félagsins þann 6.október. Kjörin var nefnd sem skyldi vinna að framgangi málsins en í henni voru auk Úlfhildar Ásta G.Björnsdóttir í Reynihlíð, Ólafía Eyjólfsdóttir á Hausastöðum, Sigurlaug Gísladóttir á Hofsstöðum og Helga Sveinsdóttir á Görðum. Óhætt er að segja að konurnar í hinu nýstofnaða kvenfélagi hafi verið stórhuga og teflt djarft með ákvörðun sinni. Eins og vænta má með nýstofnað félag voru eignir þess heldur fátæklegar og í raun aðeins trog undir þorramat og gamalt píanó. En samstaða kvenna hefur oft sýnt og sannað að allt er hægt ef vilji og áhugi er fyrir hendi. Ein félagskvenna lagði fram 50 krónur í kirkjusjóð og skömmu síðar barst formanninum umslag frá ónefndum velgjörðarmannni sem hafði að geyma 500 krónur sem var stórfé á þessum tíma.

Þar með var vegferðin frá rústum gömlu kirkjunnar í Görðum til þessa fallega húss sem við sitjum nú í hafin. Í hönd fór þrotlaus vinna félagskvenna sem lögðu nótt við dag til þess að vinna þessu mikilvæga máli framgang. Flest nýstofnuð félög hefðu líklega látið sér nægja veigaminna verkefni en það sem brautryðjendur félagsins réðust í. Það á hins vegar ekki við um félagskonur í Kvenfélagi Garðahrepps. Þær létu sér ekki nægja að beita sér fyrir endurbyggingu kirkjunnar heldur stóðu einnig fyrir verulegri stækkun samkomuhússins í Garðaholti. Og það sem meira er þá unnu þær það verk að mestu með eigin höndum.

Ekkert vafamál er að framtak Kvenfélagsins varð til þess að auka samkennd fólks í sveitarfélaginu og þeir sem höfðu horft tárvotum augum á niðurlægingu kirkjunnar sinnar tóku til að brosa í gegnum tárin þegar þeir sáu hana rísa smátt og smátt úr rústum og verða að einu glæsilegasta guðshúsi landsins. Íbúum í hreppnum fjölgaði jafn og þétt og sífellt fleiri hrifust af hugsjónabaráttu kvenfélagskvenna og vildu leggja sitt af mörkum. Verkefnið var vissulega mikið og kostnaðarsamt en fyrr en varði kom árangur erfiðisins í ljós sem hvatti til enn frekari átaka. Þeim kvenfélagskonum bættist liðsstyrkur úr ýmsum áttum. Í því sambandi má til dæmis nefna alþjóðlegan starfshóp sem lagði fram mikla sjálfboðavinnu ásamt ungum heimamönnum. Séra Bragi sem þá var nýfluttur í sveitarfélagið átti frumkvæðið að komu útlendinganna sem bjuggu sumarlangt í samkomuhúsin. Pílagrímar norðursins var hópurinn gjarnan kallaður og kannski eru hér einhverjir viðstaddir sem voru í þessum hópi.

Stórt skref var stigið er Garðasókn var endurvakin árið 1960 en þá tók sóknarnefnd undir forystu Óttars Proppé við framkvæmdum við kirkjuna. Freistandi væri að nefna nöfn fleiri einstaklinga sem komu að framkvæmdum en sennilega er ekki á neinn hallað þótt Sigurlinni Pétusson sé nefndur sérstaklega en hann var yfirsmiður og verkstjóri allan tímann sem tók að endurbyggja kirkjuna og mótaði á margan og sérstakan hátt ýmislegt sem gert var. Sem dæmi má nefna kirkjugólfið sem er lagt líparíti úr Drápuhlíðarfjalli.

En það þurfti ekki aðeins að endurbyggja kirkjuna heldur útvega allan búnað sem guðshúsi tilheyrði. Eini gripurinn úr gömlu kirkjunni sem sjá má hér í dag er númerataflan fyrir sálma sem Hafnarfjarðarkirkja gaf við vígslu kirkjunnar. Alla aðra kirkjumuni vantaði. Þegar hillti undir verklok bárust kirkjunni fjölmargar góðar gjafir úr ýmsum áttum. Framlag kvenfélagskvenna var þó enn sem áður veigamest við allar framkvæmdir. Þær spurðu hvað vantaði og sáu síðan um að útvega það. Í fyrstu var engin altaristafla í kirkjunni heldur einfaldur trékross. Halldór Pétursson málaði altaristöfluna sem nú blasir við kirkjugestum en hún var meðal margra minningargjafa sem kirkunni bárust þegar hún var endurvígð. Bakgrunn altaristöflunnar, þar sem Keilir skartar sínu fegursta, kannast flestir Garðbæingar við. Trékrossinn góði var fluttur í nýbyggt safnaðarheimili en síðan færður Vídalínskirkju að gjöf og er einn af öndvegisgripum hennar. Kirkjan eignaðist líka snemma orgel en kaup á því voru að mestu fjármögnuð með framlagi úr minningarsjóði Jóhannesar Reykdal.

Garðakirkja var endurvígð 20.mars 1966. Var það vel við hæfi þar sem þá var þess minnst að þrjár aldir voru liðnar frá fæðingu Jóns Vídalín. Segir það sína sögu um hversu mikilvægur dagur þetta var í sögu Garðahrepps að láta mun nærri að tíundi hver íbúi sveitarfélagsins hafi verið viðstaddur athöfnina. Dagblöð greindu frá vígslunni og var í lýsingu eins þeirra tekið svo til orða: „Var þá veður svo hvasst, að hempurnar fuku upp um prestana, er þeir gengu til kirkju margir saman í flokki, og þótti það vel viðeigandi á afmælisdegi meistara Jóns, því að af honum stóð jafnan nokkur gustur, lognmolla hefði ekki verið honum að skapi.“

Því var á sínum tíma spáð að Garðakirkja ætti eftir að verða miðdepill þess þéttbýlis sem myndi fyrr eða síðar rísa í Garðahreppi milli hrauns og hafs og það hefur hún sannarlega orðið bæði í eiginlegri og óeignlegri merkingu. Árum saman var þessi fallega kirkja ekki aðeins miðstöð trúarlífs í sveitarfélaginu heldur einnig hverskonar menningarlífs. Fullskipuð Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt hér til að mynda tónleika og var þá svo þröngt setinn bekkurinn að sagt er að einn fiðluleikarinn hafi jafnt strokið bak forseta Íslands, sem sat á fremsta bekk, og strengi hljóðfæris síns.

Garðbæingar, ekki síst þeir íbúar bæjarins sem voru einhver ár Garðhreppingar, bera hlýjar taugar til kirkjunnar og þakka þeim sem höfðu þor og þrek til þess að ráðast í það stórvirki að endurbyggja hana. Þannig hafa fortíð, nútíð og framtíð verið samtengd. Hingað komum við til þess að hlíða á hinn helga boðskap kristninnar. En kirkja er ekki bara hús. Kirkju reisum við hvert og eitt innra með okkkur með því að hlýða á orðið og trúa á þann mátt guðdómsins sem öllu er æðri. Það er við hæfi á þessari stundu að vitna til orða Jóns biskups Vídalíns er hann sagði í postillu sinni:

„Svo lengi sem einn trúarneisti er í mannsins hjarta, þá er hann aldrei án Guðs, hversu lítill sem hann er; en Guðs kraftur er aldrei lítill þótt hann búi í litlu; þess vegna fullkomnast hann í veikleikanum.“