Garðakirkja

Garðakirkja í Görðum á Álftanesi er sóknarkirkja Garðasóknar. Kirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í Vilkins-máldaga frá 1397, þar sem skráðar eru allar eignir kirkna í Skálholts- biskupsdæmi, vekur það sérstaka athygli, að eignir Garðakirkju eru þá þegar orðnar ótrúlega miklar, og það svo, að landaeignir hennar munu ekki hafa aukist svo neinu næmi eftir það. Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.

Í Görðum er fæddur séra Jón Þorkelsson Vídalín (1666-1720), sem var biskup í Skálholti 1698-1720. Jón biskup Vídalín samdi “Guðrækilegar predikanir yfir öll hátíða og sunnudaga guðspjöll” og gaf út í húspostillu sinni, sem prentuð var fyrst á Hólum í Hjaltadal 1718-20. Árið 1995 var Vídalínspostilla gefin út í fimmtánda sinn, og hefur sú bók lengst, ásamt Passíusálmunum, dugað íslensku þjóðinni til guðrækilegrar iðkunar, allt þar til að húslestrar lögðust af eftir að Ríkisútvarpið tók til starfa og útvarpsmessur hófust árið 1930.

Árið 1875 vísiterar Dr. Pétur Pétursson biskup í Görðum. Þá stóð þar gömul timburkirkja í miðjum gamla hluta kirkjugarðsins og svo hrörleg orðin, að hún verður ekki talin nothæf öllu lengur að dómi biskups. Séra Þórarinn Böðvarsson, sóknarprestur í Görðum og prófastur í Kjalarnesprófastdæmi, hvatti til þess, að kirkjan yrði endurreist en ágreiningur varð um hvort byggja skyldi í Görðum eða í Hafnarfirði og náðist ekki samkomulag. Séra Þórarinn lét því árið 1879 byggja nýja kirkju í Görðum á eigin kostnað. Hann velur kirkjunni nýjan stað ofar og hærra en aðrar Garðakirkjur höfðu áður staðið og ákvað, að þessi nýja kirkja yrði gjörð af steini og var grjót til hennar tekið úr holtinu fyrir ofan kirkjuna. Þórarinn leggur allan sinn metnað í það, að kirkjan verði svo vönduð og vegleg sem verða má. Til marks um hve vel var vandað til alls, sem að kirkjusmíðinni laut, má geta þess, að þegar Garðakirkja var rifin, nær 60 árum síðar, sást hvergi ryðblettur á þakjárni hennar, og hafði þakið þó aldrei verið málað.

Kirkjuhúsið var hlaðið úr tilhöggnum steini, eins og fyrr er sagt.. Blámálað hvolfþak var í ferhyrndum reitum með gylltri stjörnu í hverjum reit og þótti kirkjan eitt glæsilegasta guðshús landsins á þeim tíma. Ekki hefur fundist skráð hvenær kirkjan var vígð, en trúlega var það á annan í hvítasunnu 1880.

Eftir vígslu nýrrar kirkju í Hafnarfirði hinn 20. desember 1914 er Garðakirkja lögð af sem sóknarkirkja, en kirkjulegar athafnir fóru þó fram í Garðakirkju eftir það, enda sat sóknarpresturinn, séra Árni Björnsson, prestsetrið að Görðum og flutti ekki til Hafnarfjarðar fyrr en um haustið 1928. Séra Árni kom að Görðum frá Reynistað í Skagafirði árið 1913. Hann varð prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 1916. og þjónaði Garðaprestakalli til dauðadags 26. mars 1932.

Útfarir fóru fram öðru hverju frá Garðakirkju þegar jarðsett var í Garðakirkjugarði, einnig eftir að kirkjan var seld í nóvember 1917. og fór síðasta athöfnin fram í maí 1937.
Eftir byggingu Hafnarfjarðarkirkju var söfnuðurinn í fjárþröng. Á aðalsafnaðarfundi 31. október 1915 var smþykkt einróma að selja Garðakirkju og í apríl næsta ár er auglýst eftir tilboðum. Þrjú tilboð bárust og voru opnuð á sóknarnefndarfundi 10. maí. Hæsta tilboðið reyndist sautján hundruð krónur. Horfið var frá því að taka nokkru tilboði þar eð fundinum barst eindregin ósk frá herra Þórhalli Bjarnarsyni biskupi, sem lofaði í þess stað tvö þúsund króna láni úr almennum kirkjusjóði með veði í Garðakirkju. Sú orðsending fylgdi frá biskupi, “að hann mætti ekki til þess hugsa að hið fornmerka kirkjuhús væri niður rifið, og það því fremur, sem Garðakirkja væri minnisvarði þjóðhöfðingjans, Þórarins heitins Böðvarssonar, sem hafði byggt hana og lagt til hennar mjög stóran skerf úr eigin vasa”. Á safnaðarfundi 29. október 1916 eru á ný flutt eindregin tilmæli frá Þórhalli biskupi um, að frestað yrði enn að selja Garðakirkju. Biskup hafði þá sótt um heimild stjórnarráðsins um að Garðakirkja yrði keypt af Thorchillisjóði er síðar kæmi þar upp “barnauppeldisstofnun”. Áður en stjórnarráðið svaraði þessu erindi lést biskup hinn 15. desember 1916. Hinn 21. maí 1917 ritar sóknarnefnd eftirmanni hans, herra Jóni Helgasyni biskupi langt bréf með beiðni um að málið yrði tekið upp að nýju en sú málaleitan bar engan árangur. Loks kemur að því, að Garðakirkja er auglýst til sölu öðru sinni. Hinn 11. nóvember 1917 eru tvö tilboð opnuð, hið hærra kr. 2.000 og er báðum tilboðum hafnað. Á fundinn voru komnir þeir Ágúst Flygenring og Einar Þorgilsson og tjá sóknarnefnd að þeir og átta menn aðrir hafi bundist samtökum um að kaupa Garðakirkju, svo að hún yrði ekki rifin niður, og var tilboð þeirra kr. 2.800. Sóknarnefnd samþykkti tilboð þeirra. Þeir aðrir, sem að kaupunum á Garðakirkju stóðu, voru: Carl Proppé, Christian Zimsen, Gunnar Egilsson, Jes Zimsen, Jón Einarsson, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason og Þórarinn Egilsson
Árið 1938 var Garðakirkja orðin mjög illa farin og turn hennar að falli kominn. Hvorki þeir, sem eftir lifðu af eigendum hennar né sóknarnefnd töldu sér fært að gera á kirkjunni bráðnauðsynlegar endurbætur og fór svo að kirkjan var rifin næsta ár.

Svo var komið um miðja tuttugustu öldina að eftir stóð af Garðakirkju tóftin ein, þak- og gluggalaus og hinir hlöðnu steinveggir Þórarins Böðvarssonar óvarðir fyrir veðri og vindum. Kom jafnvel til tals að brjóta þá niður og flytja grjótið í fyllingu í Hafnarfjarðarhöfn. Því menningarslysi varð þó forðað og komu konurnar í nýstofnuðu kvenfélagi Garðahrepps þar til sögunnar og ákváðu að hefjast handa og endurreisa Garðakirkju. Þær máttu ekki til þess hugsa, að þessi forni og merki kirkjustaður legðist af. Garðar höfðu skipað virðingarsess í íslenskri kirkjusögu um aldir. Meðal fyrstu verkefna Kvenfélags Garðahrepps var endurreisn Garðakirkju. Á fundi félagsins hinn 6. október 1953 voru þrjár konur, þær Úlfhildur Kristjánsdóttir, Dysjum, Ásta G. Björnsson, Reynihlíð og Ólafía Eyjólfsdóttir, Hausastöðum, kosnar í nefnd til að vinna að þessu mikla áhugamáli. Á fundi 11. október 1955 var ákveðið að bæta tveimur konum í nefndina og hlutu kosningu Sigurlaug Jakobsdóttir í Hraunsholti og Helga Sveinsdóttir í Görðum.
Á aðalfundi Kvenfélags Garðahrepps 2. febrúar 1954 var lagt fram svohljóðandi afsalsbréf fyrir kirkjunni, eða því sem eftir stóð af henni. “Sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju ánafnar Kvenfélagi Garðahrepps fullan eignar- og umráðarétt á veggjum Garðakirkju.” Á sóknarnefndarfundi í Hafnarfirði hinn 25. júní 1956 leggur prófasturinn, séra Garðar Þorsteinsson, fram beiðni Kvenfélags Garðahrepps um að fá að sjá um endurreisn Garðakirkju. Fenginn var arkitekt, Ragnar Emilsson til þess að teikna endurgerð kirkjunnar. Hann jók við turni vestan við hina hlöðnu veggi, sem fyrir voru. Í turninum var kyndiklefi í kjallara, anddyri með litlu skrúðhúsi og snyrtingu á fyrstu hæð, á annari hæð er söngloft, þ.e. aðstaða fyrir kirkjukór, og á þeirri hæð var byggður söngpallur inn í kirkjuna. Af sönglofti liggur hringstigi upp á milliloft þar sem geymdir eru fermingarkyrtlar o.fl. Af milliloftinu liggur svo hringstiginn áfram upp á klukknaloft, þar sem kirkjuklukkurnar eru, efst í risinu.

Byggingarmeistari var Sigurlinni Pétursson. Hann lét flytja líparít frá Drápuhlíðarfjalli við Stykkishólm, steypti líparítið í hellur, sem hann lagði síðan um kirkjugólfið. Kvenfélagskonurnar unnu að byggingu kirkjunnar með óbilandi atorku og dugnaði á næstu árum og var Garðakirkja reist úr rústum fyrir þeirra atbeina og endurvígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966.

Hafa samband