Garðbæingurinn okkar var útnefndur fimmtudaginn 23. janúar sl. við hátíðlega athöfn. Það var Hafliði Kristinsson, formaður íbúasamtakanna í Urriðaholti og fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi, sem hlaut titilinn „Garðbæingurinn okkar 2024“.
Garðabær óskaði eftir tilnefningum frá bæjarbúum og bárust 111 fjölbreyttar tilnefningar. Tilnefningarnar voru svo bornar undir dómnefnd en hana skipuðu þau Birna Guðmundsdóttir, Hrafnhildi Sigurðardóttur og Ingimundur Orri Jóhannsson. Dómnefnd útnefndi Hafliða sem Garðbæing ársins 2024 og veittu einnig fjórum einstaklingum viðurkenningar fyrir að setja svip sinn á bæjarbraginn.
Einn þeirra fjögurra var einmitt okkar kona Þórunn Birna Björgvinsdóttir kirkjuhaldari Garðasóknar. Við teljum hana vel að þessari viðurkenningu komin enda hefur hún á einstaklega ósérhlífinn hátt staðið með skjólstæðingum kirkjunnar og bæjarbúum öllum, ekki síst þegar mest á reynir. Hún hefur liðsinnt íbúum bæjarins í Garðakirkju og Vídalínskirkju um árabil og séð um Garðakirkjugarð að auki. Þrátt fyrir afar þröngan fjárhag garðsins hefur henni og Kjartani Antonssyni tekist að halda kirkjugarðinum eins fallegum og mögulegt er allt árið um kring.
Í rökstuðningi dómnefndar um Þórunni og tilnefningum segir meðal annars:
„Sem kirkjuvörður gegnir hún mikilvægu hlutverki við að þjónusta bæjarbúa og skapa jákvæða og hlýja upplifun fyrir alla sem leita til hennar. Hún hefur verið ómetanlegur stuðningur á viðkvæmustu, gleðilegustu en líka erfiðum stundum í lífi fólks. Þórunn er brosmild, lausnamiðuð og passar að öll sem verða á hennar vegi labbi bæði södd og sæl frá henni.“
Hin þrjú sem fengu viðurkenningu eru Erla Jónsdóttir, vaktstjóri í Ásgarðslaug, Gunnar Hrafn Richardson, verkefnastjóri tækni- og tómstundarmála hjá Garðabæ og Freyja Huginsdóttir, meðlimur í ungmennaráði Garðabæjar, sem fékk sérstaka hvatningu sem ung manneskja sem hefur margt fram að færa.
Það er gaman frá því að segja að Gunnar Hrafn tengist Garðasókn líka því hann hefur setið í sóknarnefnd um árabil. Gunnar hefur verið duglegastur allra þegar kemur að tæknilegum undirbúningi athafna ekki síst þegar Gospelkór Jóns Vídalín kemur fram en þá þarf hljóðkerfið að virka og vera gott.
Í rökstuðningi dómnefndar og tilnefningum segir meðal annars:
„Gunni er alltaf reiðubúinn að aðstoða aðra, hvort sem það er í verkahring hans eða ekki. Hann er svo sannarlega til þjónustu reiðubúinn. Hann er gegnheill maður sem hefur unnið traust og virðingu allra sem hafa kynnst honum.“
Garðasókn óskar Þórunni Birnu, Gunnari Hrafni, Erlu og Freyju til hamingju með verðskuldaðar viðurkenningar og Hafliða Kristinssyni með nafnbótina Garðbæingurinn okkar. Það er sannarlega ánægjulegt og til eftirbreytni að bæjarbúar taki eftir og viðurkenni hvunndagshetjur, líkt og þessi fimm, sem öll hafa lagt sinn mikilvæga skerf til samfélagsins. Andrea Róberts á líka hrós skilið því í máli bæjarstjóra kom fram að hún hefði átt hugmyndina að Garðbæingnum okkar.
Þórunn Birna var erlendis þegar viðurkenningin var afhent en börnin hennar voru á staðnum og veittu viðurkenningunni viðtöku fyrir hennar hönd eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Á myndunum hér að neðan má líka sjá börn Þórunnar ásamt bæjarstjóra, forseta bæjarstjórnar og dómnefndarfólkinu annarsvegar og Gunnar Hrafn með sama fólki hins vegar. Á myndbandinu má heyra Almar Guðmundsson bæjarstjóra segja frá útnefningu Þórunnar.
Opin þriðjudaga-föstudaga frá 10-15,
Kirkjulundi 3
210 Garðabæ
Garðar, Álftanesi
Garðar, Álftanesi