Málþing til heiðurs sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur

Laugardaginn 28. september kl. 10.00-12.30 verður haldið áhugavert málþing til heiðurs sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur í tilefni af 50 ára vígsluafmæli hennar en hún var fyrsta konan á Íslandi til að hljóta prestvígslu í Þjóðkirkjunni.

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur mun fjalla um vígslu sr. Auðar Eirar og lesa samantekt á framlagi hennar til ritskýringar á textum Biblíunnar eftir dr. Sigurvin Lárus Jónsson. Þá munu prófessorar við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, dr. Arnfríður Guðmundsdóttir og dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, fjalla um framlag hennar til guðfræði og kristni á Íslandi.

Að lokum mun sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir bregðast við þeim erindum sem flutt hafa verið.

Auður Eir fæddist í Reykjavík 21. apríl 1937. Foreldrar hennar voru Inga Árnadóttir (1903-1995) húsmóðir og Vilhjálmur Þ. Gíslason (1897-1982) útvarpsstjóri. Eiginmaður Auðar er Þórður Örn Sigurðsson og eiga þau fjórar dætur.
Hún lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1956 og embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1962. Séra Auður Eir hlaut prestvígslu 29. september árið 1974, fyrst kvenna á Íslandi. Hún tók formlega við embætti 1. október og fór fyrst til þjónustu á Suðureyri við Súgandafjörð en frá 1978-1998 var hún sóknarprestur í Kirkjuhvolsprestakalli í Rangaárvallasýslu og starfaði svo síðar sem sérþjónustuprestur í Reykjavík. Auður Eir var í framboði til embættis biskups Íslands árið 1997 en náði ekki kjöri. Árið 1993 stofnaði Auður Eir Kvennakirkjuna sem var sjálfstæður hópur innan Þjóðkirkjunnar.
Auður Eir hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2005.

Málþinginu verður streymt á miðlum Vídalínskirkju og viðstöddum verða boðnar veitingar að loknu málþingi.

Verið öll hjartanlega velkomin í safnaðarheimili Vídalínskirkju.
Ókeypis aðgangur.

Vídalínskirkja
Laugardagur 28. sep
10:00
Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir
Facebook
LinkedIn
Tölvupóstur
Prenta

Hafa samband