Kór Vídalínskirkju í menningar- og söngferð til Ungverjalands 10.-17. júní 2024

Hópurinn að leggja af stað frá Vídalínskirkju

Að kvöldi mánudagsins 10. júní 2024 lagði Kór Vídalínskirkju, ásamt mökum og vinum, alls um 50 manns, af stað í menningar- og söngferð til Ungverjalands

 

 

Þessi ferð var upprunalega á dagskrá kórsins fyrir 5 árum, en þá voru liðin 25 ár frá því að farið var í ógleymanlega ferð á sömu slóðir. Fararstjóri þá var Ferenc Utassy, sem var organisti og kórstjóri við Garðasókn árin 1990-1995, en hann er nú ræðismaður Íslands í Ungverjalandi og hefur skipulagt ferðir fjölda Íslendinga til Ungverjalands. Af ýmsum ástæðum, m.a. heimsfaraldurs, varð að fresta ferðinni um þessi 5 ár en loksins gekk þetta upp.

Fararstjórnin: Valdimar, Anna Sigríður, Sonja, Herdís, Sveinbjörg og Jóhann

Stjórn Kórs Vídalínskirkju, Valdimar Karl Guðlaugsson, Herdís Tómasdóttir, Sveinbjörg M. Dagbjartsdóttir, Sonja Kristín Sverrisdóttir og Anna Sigríður Brynjarsdóttir voru í ferðanefnd kórsins ásamt Jóhanni Baldvinssyni kórstjóra.

Upphaf ferðarinnar var þó ekki eins og áætlað var því nærri þriggja tíma seinkun var á brottför og því ekki lent í Búdapest fyrr en að morgni þriðjudags. Þar tók Ferenc á móti hópnum og ekið var með rútu til miðborgar Búdapest. Þar var byrjað á að borða morgunmat á hótel President og síðan var hvíld til hádegis.

Hótel President er fallegt hótel í miðborg Búdapest, örskammt frá dómkirkju heilags Stefáns. Ferenc fór með hópinn í mjög skemmtilega og fræðandi gönguferð um miðborgina eftir hádegið og endaði við dómkirkjuna. Það sem eftir lifði dags nýttu ferðalangarnir í að upplifa borgina og stemminguna á eigin vegum og ekki síst til að hvíla sig fyrir komandi dag.

Sungið fyrir utan Hús ungverskrar tónlistar

Miðvikudagsmorguninn hófst á rútuferð um Búdapest. Saga borgarinnar og Ungverjalands lifnaði við í mjög fræðandi og skemmtilegri frásögn Ferenc. Farið var á Hetjutorgið og í Borgargarðinn, sem var stórkostleg upplifun. Við komum einnig við í splunkunýrri gersemi borgarinnar, "Húsi ungverskrar tónlistar", sem er virkilega glæsilegt hús, vígt árið 2023. Því miður fengum við ekki að fara inn í tónleikasali hússins því bóka þarf skoðunarferðir með löngum fyrirvara. Þess í stað tókum við lagið á útisviði við inngang hússins og skoðuðum anddyri þess.

Hópurinn fyrir utan óperuna

Seinni partinn fóru allir í spariklæðnað og stefnan tekin, gangandi, í Ríkisóperuna að sjá óperuna Aida eftir Verdi á stóra sviði óperunnar. Sýningin, sem tók nærri 4 klst., var hreint mögnuð upplifun og óperuhúsið eitt það glæsilegasta sem fólk hafði séð!

Fimmtudagurinn byrjaði rólega en um hádegið var lagt af stað upp með Dóná með rútu og farið til listaþorpsins Szentedre, þorps með gömlum byggingum í stíl við Árbæjarsafnið hjá okkur. Gengið var um þorpið og nutu ferðafélagar lystisemda þess.

Því næst lá leiðin til bæjarins Göd, eins af úthverfum Búdapest, en þar vorum við með tónleika. Þar tóku á móti okkur í safnaðarheimili kirkjunnar kórfélagar úr Gaude, kórnum sem Ferenc stofnaði og stjórnaði þar til fyrir fáum árum, með léttum veitingum, m.a. heimabakstri og ávöxtum og berjum sem komu úr görðum kórfélaga.

Tónleikar voru síðan í kirkju heilags Stefáns í Göd. Í upphafi ávarpaði nýkjörinn bæjarstjóri í Göd tónleikagesti og færði Ferenc og Jóhanni kórstjóra gjafir frá bæjarstjórninni. Síðan söng Gaude tvö lög undir stjórn nýs kórstjóra síns en svo tók Kór Vídalínskirkju við. Undirtektir tónleikagesta við söng kórsins voru mjög góðar og greinilegt að lagaval kórsins féll vel að smekk tónleikagesta.

Að loknum söng Kórs Vídalínskirkju bættust kórfélagar úr Gaude í hópinn og Ferenc stjórnaði í lokin tveim íslenskum lögum með sameinuðum kór. Þetta voru hinir glæsilegustu tónleikar!

Þegar kórfélagar voru komnir í rútu eftir tónleikana komu Gaude-félagar að rútunni og kvöddu hópinn með því að syngja írska farabæn. Var það mjög áhrifaríkt.

Eftir þessa frábæru stund í Göd var haldið með rútu að Dóná og stigið um borð í skip og farið í siglingu um Dóná. Um borð var sígaunahljómsveit og danspar sem héldu uppi skemmtidagskrá meðan gestir gæddu sér á dýrindis mat og drykk. Skipið sigldi undir hinar fjölmörgu brýr Dónár og þegar myrkur skall á nutu ferðafélagar fegurðar upplýstrar Búdapestborgar. Þessi sigling er ferðafélögunum ógleymanleg.

Þessum viðburðarríka degi lauk svo um miðnætti þegar þreyttir en ánægðir kórfélagar og ferðafélagar þeirra komu heim á hótel.

Á föstudagsmorgun var komið að því að yfirgefa höfuðborgina og halda austur á bóginn. Fyrsta viðkoma var í gamla þorpinu Hollókö, sem var fyrsti staður Ungverjalands sem komst á Heimsminjaskrá Sameinuðu Þjóðanna, Unesco. Þegar við komum til þorpsins var komið hið besta veður og því þótti tilhlýðilegt að taka lagið við þorpskirkjuna og syngja Ó, blessuð vertu sumarsól.

Heimsókn til þessa þorps var mjög skemmtileg. Þarna eru fullt af söfnum, handverkshúsum og veitingastöðum. Hópurinn naut þess að skoða sig um, þræða handverksstaði og gæða sér á ekta ungverskri gúllasssúpu.

Kastalahótelið í Parád

Næst lá leiðin gegnum fjallendi Mátra í dalinn Parád og stefnan tekin á kastalahótelið og Þyrnirósarhöllina Sasvár. Þegar hótelið birtist greip hópurinn andann á lofti. Þvílík fegurð! Hótelið er í þrem húsum, gömlu höllinni og tveim húsum sem voru áður íverustaðir þjónustufólks hallarinnar. Hótelið er í litlum sveitabæ en við það er inni- og útisundlaug, heilsurækt og veitingastaður. Þetta hótel var íverustaður okkar næstu þrjá daga.

Laugardagurinn var kærkominn hvíldardagur og var hann nýttur í gönguferðir um nágrennið og um þorpið Parádsavár, sem áður fyrr var þekkt fyrir glerblástur og útskurð í gler með stórri glerverksmiðju sem nú er hætt störfum.

Á vel heppnuðum kvöldverði í Sasvár um kvöldið söng kórinn og þakkað Ferenc fyrir góða skipulagningu ferðarinnar og voru honum einnig færðar gjafir frá kórnum.

Sunnudagurinn byrjaði með rútuferð snemma dags til borgarinnar Eger og stefnan tekin á kaþólsku dómkirkju borgarinnar, Basilíkuna. Þar söng kórinn við kaþólska hámessu bæði inni í athöfninni, undir útdeilingu og stutta tónleika í lok messunnar, allt íslensk kórverk án undirleiks. Kirkjugestir voru um 500 og var messunni einnig útvarpað. Fengum við miklar þakkir fyrir sönginn.

Eftir messuna fór Ferenc með okkur í kynnisferð um borgina, sem á sér mjög merka og athyglisverða sögu. Þessi borg er Ferenc sérstaklega kær en þar nam hann m.a. tónlist á sínum tíma. Fólki gafst tími til að upplifa fegurð borgarinnar og njóta matarmenningar. Þess má að geta að stuttu fyrir heimferð skall á þrumuveður með þvílíku úrhelli að fólk hafði vart séð annað eins, en svo stytti upp eins og hendi væri veifað.

Mánudagurinn, Þjóðhátíðardagurinn, byrjaði með smá dumbungi, en þann dag yfirgáfum við glæsta Þyrnirósarhöllina í Sasvár og stefnan tekin á smábæinn Bükkszenenterzsébet, heimabæ og sumarsetur Ferenc. Þar tók móðir hans á móti okkur og fyrsta verk þar var að stilla sér upp og syngja Þjóðsönginn. Var mjög áhrifaríkt að vera úti í steikjandi hita og sól og syngja.

Búið var að dekka upp borð í garðinum og var öllum boðið til máltíðar, þjóðarrétt Ungverja, kálböggla, sem móðir Ferenc hafði útbúið fyrir hópinn. Með matnum var boðið upp á vín sem vínbóndi úr héraðinu skenkti. Var þetta hin besta veisla.

Eftir að hafa kvatt gestgjafana var haldið með rútu til kirkju bæjarins, en þar söng kórinn eftirminnilega tónleika fyrir fullu húsi fyrir 30 árum. Sóknarpresturinn tók þar á móti okkur en síðan söng kórinn Smávinir fagrir í minningu Halldórs Vilhelmssonar og skiptust Jóhann og Ferenc á að stjórna kórnum.

Eftir sönginn var stefnan tekin á flugvöllin því flugið heim var undir kvöld. Gekk ferðin að óskum og komið heim til Íslands um miðnætti á þjóðhátíðardaginn.

Þess má geta að í hópnum í þessari ferð voru níu kórfélagar og tveir makar sem voru í sams konar ferð fyrir 30 árum! Var haft á orði að ekki mættu líða önnur 30 ár til næstu ferðar.

Mánudagur 10. jún
Jóhann Baldvinsson

Hafa samband