Ert þú og þínir nánustu skráð í Þjóðkirkjuna? Kannski telur þú að svo sé en raunin gæti verið önnur, þar sem fólk heldur oft að það sé nóg að vera skírt og fermt í kirkju eða af presti og sé þá sjálfkrafa skráð, en þannig er það nú ekki.
Hér geturðu kannað skráninguna þína og breytt henni ef þú vilt. Ef þú ert skráð/ur í Þjóðkirkjuna rennur sóknargjaldið þitt til starfsins í þinni sókn og stendur undir öllum rekstri þinnar sóknarkirkju, s.s. barna- og æskulýðsstarf, eldri borgarastarf, kórastarf o.s.frv. Rekstur biskupsstofu er fjármagnaður á annan hátt.
Hér að neðan eru ýmsar upplýsingar og fróðleikur um sóknargjöldin.
Veistu?
– Að þú getur kannað trúfélagsskráninguna þína með því að skrá þig inn á „mínar síður“ á island.is (velur „Mínar upplýsingar“ og smellir svo á „Skoða upplýsingar“) og breytt henni svo ef þú vilt. Ef þú ert skráð/ur í Þjóðkirkjuna rennur sóknargjaldið þitt til að efla þjónustuna og starfið í kirkjum Garðabæjar.
– Að margir sem telja sig skráða í þjóðkirkjuna eru það ekki. Fyrir því geta legið ýmsar ástæður s.s. tímabundin dvöl erlendis vegna náms eða starfa o.fl.
– Að börn fylgja eingöngu trúfélagi foreldra ef báðir foreldrar eru í sama trúfélagi. Þetta þýðir að ef annað foreldrið er í skráð í þjóðkirkjuna og hitt foreldrið t.d. í Fríkirkjuna þá skráist barnið í „ótilgreint trúfélag“ hjá þjóðskrá.
– Að sóknargjöld eru félagsgjöld, sem ríkið innheimtir og skilar til safnaða þjóðkirkjunnar og skráðra trú og lífsskoðunarfélaga. Upphæðin er 1192 kr. á mánuði fyrir árin 2023 og 2024. Ef farið væri eftir lögum um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987, hefðu sóknargjöldin árið 2023 átt að vera um 2010 krónur og líklega hærri 2024 (heimild: kirkjan.is).
– Að sóknargjöld einstaklings sem ekki er skráður í trú- eða lífsskoðunarfélag renna óskipt í ríkissjóð (á árum áður runnu þau til Háskóla Íslands en því var breytt árið 2009).
– Að einungis 70% Garðbæinga eru skráð í þjóðkirkjuna en um 90% barna í hverjum fermingarárgangi hefur fermst í Vídalínskirkju, Garðakirkju eða Bessastaðakirkju um langt árabil.
– Að sóknargjöld Garðbæinga sem skráðir eru í þjóðkirkjuna renna beint til Garðasóknar eða Bessastaðasóknar (eftir búsetu í bænum). Þau renna hins vegar hvorki til þess að standa straum af kostnaði við yfirstjórn kirkjunnar né til að kosta prestsþjónustuna í landinu.
– Að sóknargjöldin standa undir þjónustu safnaðanna. Þau eru notuð til að kosta allan rekstur húsnæðis kirkjunnar t.d. viðhald á kirkjum, rafmagn og hita og annað sem fellur til auk þess að greiða laun starfsmanna sókna t.d. organista, kirkjuvarða, djákna, ræstitækna, starfsfólks í barna- og æskulýðsstarfi, sálgæslu, sorgarhópum og öðru kirkjustarfi. Þá fara sóknargjöldin enn fremur í kaup á því sem nota þarf við starf kirkjunnar t.d. efniskostnað við barna- og æskulýðsstarf, fullorðinsstarf, eldriborgarastarf og annað kirkjulegt starf.
– Að sóknargjöldin gera Garðasókn kleift að leggja til u.þ.b. helming af árlegum framlögum til Styrktarsjóðs Garðasóknar sem er bakhjarl fjölmargra tekjuminni fjölskyldna og einstaklinga í bænum og þeirra sem búa við skertar tekjur vegna heilsubrests eða annarra óvæntra aðstæðna.
– Að sóknargjöldin hafa einnig gert Garðasókn kleift að halda utan um starf Arnarins frá upphafi.
– Að Garðasókn hefur lögum samkvæmt umsjón með rekstri Garðakirkjugarðs. Vegna skertra tekna kirkjugarða frá bankahruni hefur sóknin ítrekað þurft að fjármagna hallarekstur til að halda garðinum vel snyrtum og fallegum og til að standa undir kostnaði við stækkanir garðsins 2019 og aftur 2024.
Þú getur kannað skráninguna þína með því að skrá þig inn á „mínar síður“ á skra.is og breytt henni ef þú vilt. Ef þú ert skráð/ur í Þjóðkirkjuna rennur sóknargjaldið þitt til að efla þjónustuna og starfið í kirkjum Garðabæjar.
Opin þriðjudaga-föstudaga frá 10-15,
Kirkjulundi 3
210 Garðabæ
Garðar, Álftanesi
Garðar, Álftanesi