Góð mæting í helgigönguna

Að áralangri hefð var helgiganga frá Vídalínskirkju að Garðakirkju á föstudaginn langa. Góð mæting var enda veðrið með afbrigðum gott miðað við árstíma, 4° hiti og sólskin. Þrjátíu og þrír einstaklingar mættu í þessa andlegu og líkamlegu heilsubótargöngu, sú yngsta á öðru aldursári og þau elstu á áttræðisaldri. Leópold Sveinsson framkvæmdastjóri Garðasóknar leiddi gönguna og las um píslargöngu Jesú Krists á þeim stöðum sem áð var á. Boðið var upp á harðfiskbita undir lestrinum sem einn göngumaður kallaði vestfirskar oblátur. Einnig voru skoðaðar stríðsminjar á Garðaholti en þar voru tveir „kampar“ breta og bandaríkjamanna á stríðsárunum með loftvarnarbyssum og öðru tilheyrandi. Er komið var að Garðakirkju hlýddi hópurinn á stuttan fyrirlestur um sögu kirkjunnar.

Helgiganga var líka gengin frá Bessastaðakirkju og var afar góð mæting þar líka. Um 30 manns gengu leiðina undir leiðsögn sr. Hans Guðbergs Alfreðsonar prófasts. Gönguhóparnir mættust í kirkjunni, þáðu hressingu og hvíldu þreytta kroppa.

Í Garðakirkju var síðan helgistund þar sem sr. Jóna Hrönn Bolladóttir þjónaði, Kór Vídalínskirkju söng undir stjórn Jóhanns Baldvinssonar organista og Sigurður Skúlason leikari las valda Passíusálma einstaklega fallega, eins og honum einum er lagið. Um 130 kirkjugestir nutu tónlistarinnar og lestursins.

Hafa samband