Foreldranámskeið verða í safnaðarheimili Vídalínskirkju á þriðjudögum kl. 10:30 frá 11. mars til 8. apríl. Námskeiðið fer fram í norðursal safnaðarheimilis Vídalínskirkju og inngangur er að norðanverðu, gengið upp rampinn. Þar er góð aðstaða fyrir foreldra og börn, hægt að keyra vagna upp að dyrum. Notalegt andrúmsloft og dýrmæt samvera.
Boðið verður upp á góða fræðslu í hverri samveru en áhersla þessa námskeiðs verður á foreldra og hvernig létta megi undir með þeim á þessum miklu umbrotatímum sem ungbarnaskeiðið er. Umsjónaraðili námskeiðs er Stella Rún Steinþórsdóttir sem sjálf er móðir auk þess að vera nemandi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Henni til halds og trausts verða reyndir fyrirlesarar og sérfræðingar sem munu miðla af sínu auk þess að taka samtalið við foreldra í lok hverrar samveru.
- Þriðjudagur 11. mars 2025
Fyrsta samvera – kynning á námskeiði auk örerindis um þroska ungra barna og tengsla þeirra við nánustu umönnunaraðila. Stella Rún Steinþórsdóttir foreldri, umsjónaraðili foreldrasnámskeiðsins og nemandi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.
- 18. mars 2025
Önnur samvera – Erna Kristín hjá Ernulandi. Foreldri, guðfræðingur og aktivisti – baráttukona fyrir bættri líkamsímynd. Erindi um líkamsímynd, að finna sig í eigin líkama eftir meðgöngu og fæðingu auk ráða til maka sem ekki gengu með barnið, hvernig styðja megi við maka sinn á þessum miklu umbrotatímum í sambandinu.
- 25. mars 2025
Þriðja samvera – Elísabet Ýrr Steinarsdóttir sálfræðingur og fjölskyldufræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni. Erindi um barneignir og parsambandið með áherslu á samskipti og nánd í kjölfar barneigna.
- 1. apríl 2025
Fjórða samvera – Hulda Tölgyes sjálfstætt starfandi sálfræðingur og annar höfunda að bókinni Þriðja vaktin: Jafnréttishandbók heimilisins. Erindi um huglæga byrði innan fjölskyldunnar auk hagnýtrar fræðslu um hvernig sýna megi sjálfsmildi í kröfuhörðum heimi samtímans.
- Þriðjudagur 8. apríl 2025
Lokasamvera – fjármálafræðsla frá Íslandsbanka sérstaklega miðuð að ungum foreldrum.
Pálínuboð, gott kaffi og gott spjall.
Námskeiðið er ókeypis og öllum opið.