Afskrýðing altaris á skírdagskvöld

Sú hefð hefur skapast í Vídalínskirkju í Garðabæ að afskrýða altarið á skírdagskvöld kl. 20:00 og skilja það eftir hulið svörtu klæði með fimm rauðum rósum. Þetta er táknræn athöfn sem vísar til þess að eftir síðustu kvöldmáltíðina fór Jesús með vinum sínum út í Getsemanegarðinn til að biðja, enda vissi hann að þjáningin væri framundan og píslarganga hans hófst þar. Þar var hann handtekinn og tekinn svo af lífi daginn eftir, á föstudeginum langa. Þess vegna er altarið, sem táknar Krist í kirkjunni, skilið eftir í sorgarklæðum. Ljósin, sem tákna lofgjörð til Krists, eru slökkt og hvíti dúkurinn, sem tákn reifanna sem Jesúbarnið var vafið og líndúkanna sem hann var sveipaður látinn, fjarlægður.

Í lok athafnarinnar, þegar svarti dúkurinn er komin á altarið, gengur barn inn með fimm rauðar rósir sem það setur á altarið. Rósirnar tákna sárin fimm á Jesú, á höndum, fótum og síðu. Á meðan altarið er afskrýtt er Davíðssálmur 22 lesinn. Álitið er að Jesús hafi byrjað að fara með þessi orð á krossinum en sálmurinn hefst á orðunum ,,Guð minn, Guð minn! Hví hefur þú yfirgefið mig?“ Í lok messunnar eru svo öll ljós slökkt og fólkið gengur út í Getsemanemyrkið eftir sterka og táknræna stund.

Á skírdag, 17. apríl nk., mun dr. Sigurvin Lárus Jónsson þjóna fyrir altari og Þórunn Sveinbjarnardóttir flytja hugleiðingu. Sönkonurnar Erla Björg Káradóttir og Jóhanna Ósk Valsdóttir syngja, organisti Jóhann Baldvinsson.

Vídalínskirkja
Fimmtudagur 17. apr
20:00
Sr. Sigurvin Lárus Jónsson
Jóhann Baldvinsson
Facebook
LinkedIn
Tölvupóstur
Prenta

Hafa samband