Í samtímanum er áberandi sú afstaða til Biblíunnar að hún eigi ekki erindi, sökum þess að sögur hennar standist ekki sögulega eða vísindalega skoðun. Sú afstaða byggir á misskilningi á eðli Biblíunnar og þeirrar stórsögu sem Biblían segir, en Biblíusögur gera hvorki tilkall til að vera sagnfræði í nútíma skilningi né vísindi. Sem dæmi um slíka umræðu mætti nefna annarsvegar þá tilhneigingu að stilla sköpunarsögu Biblíunnar upp gegn Miklahvellskenningunni og hinsvegar að þróunarkenning Darwin afsanni söguna af Adam og Evu. Slíka skautun, sem finna má bæði meðal þeirra sem aðhyllast bókstaflega túlkun á Biblíutextum og þeim sem sjá í Biblíusögum ógn við vísindahyggju, er hvorki að finna hjá þeim kirkjudeildum sem gera kröfu um háskólamenntun presta né í almennri guðfræði. Ég þekki engin dæmi þess að kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands eða þjóðkirkjuprestur hafi haldið slíkri bókstafshyggju á lofti. Þvert á móti liggur Charles Darwin hinstu hvílu inni í Westminster Abbey, til að heiðra framlag hans til náttúruvísinda, en sú kirkja er höfuðkirkja ensku biskupakirkjunnar. Myndband þetta er hluti af biblíufræðslu fyrir fullorðna sem nefnist Sagnaarfur Biblíunnar. Verkefnið er unnið af Garðasókn í Garðakirkju og styrkt af Héraðssjóði Kjalarnesprófastsdæmis.
Opin þriðjudaga-föstudaga frá 10-15,
Kirkjulundi 3
210 Garðabæ
Garðar, Álftanesi
Garðar, Álftanesi