Sumarmessa kl. 11.00. Notaleg sumarstemmning verður án efa í Garðakirkju um verslunarmannahelgina, þar sem sungnir verða léttir sálmar sem fanga augnablikið. Sr. Arna Grétarsdóttir þjónar fyrir altari. Seimur, kór Ástjarnarkirkju, og Karl Olgeirsson tónlistarstjóri leiða tónlistina.
Beint streymi frá athöfninni verður á facebook.com/sumarmessur.
Messukaffi verður í hlöðunni að Króki eftir messu. Söngdívan Hera Björk Þórhallsdóttir og Karl Olgeirsson flytja vel valin lög sem flestir ættu að geta tekið undir. Heru Björk þekkja allir enda hefur hún verið fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, fyrst árið 2010 með lagið „Je ne sais quoi“ og svo á síðasta ári með lagið „Scared of Heights“.
Ef þú verður í bænum um verslunarmannahelgina er tilvalið að efla andann í fegurðinni í Garðahverfinu, njóta Sumarmessu í Garðakirkju, þiggja kaffi og fagran söng að Króki og taka jafnvel göngutúr um svæðið á eftir. Garðakirkjugarður er fallegur og friðsamur reitur og Garðahverfi er verndarsvæði í byggð með margar minjar, m.a. áhugaverðar herminjar, sem nánar má lesa um hér.
Sumarmessur eru samstarfsverkefni safnaðanna í Hafnarfirði, Álftanesi og Garðabæ og eru í Garðakirkju kl. 11 alla sunnudaga í júní, júlí og ágúst.