Hátíðarguðsþjónusta í Vídalínskirkju á 30 ára vígsluafmæli kirkjunnar en hún var vígð 30. apríl 1995 af herra Ólafi Skúlasyni biskupi Íslands. Sr. Bragi Friðriksson var þá sóknarprestur og prófastur og þjónaði hann við kirkjuna til ársins 1997.
Dr. Sigurvin Lárus Jónsson og sr. Arna Grétarsdóttir þjóna fyrir altari í athöfninni. Hrannar Bragi Eyjólfsson, bæjarfulltrúi í Garðabæ og barnabarn sr. Braga Friðrikssonar, og Hilmar Ingólfsson, fyrrum skólastjóri, flytja hugleiðingar um sögu kirkjunnar.
Guðrún Þórarinsdóttir leikur á víólu og Kór Vídalínskirkju syngur undir stjórn Jóhanns Baldvinssonar organista.
Messukaffi verður í safnaðarheimilinu eftir athöfnina.
Beint streymi verður á facebook.com/vidalinskirkja.
Vídalínskirkja var eins og áður sagði vígð 30. apríl 1995 af herra Ólafi Skúlasyni biskupi, en kirkjan er kennd við Jón biskup Vídalín í Görðum. Hann var prestur þar frá 1696 til 1698 er hann var vígður biskup að Skálholti. Því embætti gegndi hann allt til dauðadags árið 1720.Jón Vídalín var án efa einn merkasti biskup sem setið hefur Skálholt. Vídalínspostilla, sem hann samdi, kom út árið 1718. Hún er sú húslestrarbók sem mest var notuð hér á landi á 18. og 19. öld. Þegar ákveðið var að reisa nýja kirkju í Garðabæ varð að ráði að nefna hana Vídalínskirkju í minningu Jóns biskups Vídalíns, sem er einn merkasti íbúi prestakallsins fyrr og síðar.
Vídalínskirkja er hönnuð af Skúla H. Norðdahl arkitekt, en hann hannaði einnig safnaðarheimilið sem byggt var fyrr. Grunnflötur fyrstu hæðar er 502 fm en samtals er grunnflötur byggingarinnar 746 fm og rúmmál hennar 5044 rúmmetrar. Kirkjan rúmar allt að 300 manns í sæti, en unnt er að opna inn í safnaðarheimilið og geta þá yfir 500 manns verið við athöfn.
Opin þriðjudaga-föstudaga frá 10-15,
Kirkjulundi 3
210 Garðabæ
Garðar, Álftanesi
Garðar, Álftanesi