Helgiganga frá Vídalínskirkju og helgistund í Garðakirkju á föstudaginn langa.

TAKTU ÞÁTT Í SKEMMTILEGRI GÖNGU MEÐ ÓLAFI SÆMUNDSSYNI!

Á föstudagurinn langa, 18. apríl kl. 15:15, örkum við af stað í okkar árvissu Helgigöngu frá Vídalínskirkju að Garðakirkju. Sóknarnefndarmaðurinn Ólafur Sæmundsson leiðir gönguna að þessu sinni. Vídalínskirkja opnar kl. 15:00 og hitað verður upp fyrir gönguna með andlegu fóðri áður en lagt er af stað. Áð verður reglulega á leiðinni og hlustað á valin erindi úr Píslarsögunni.

Gönguleiðin, sem er bæði fjölbreytt og falleg, er um 6 km löng og tekur rúmlega eina og hálfa klukkustund í göngu. Gönguhraða er stillt þannig að flestir sem eru við sæmilega heilsu ættu að geta gengið með. Veðurútlitið er sannarlega frábært miðað við árstíma; 8 stiga hiti, heiðskírt og hægur vindur. Engu að síður er göngufólk hvatt til að klæða sig vel, vera með góðan fótabúnað og gott er að hafa lítinn bakpoka með aukafatnaði, orkuríku nesti og drykk.

Helgistund með kórsöng og Passíusálmalestri hefst svo í Garðakirkju kl. 17:00. Vilborg Ólöf Sigurðardóttir djákni leiðir stundina en hún leiðir einnig sambærilega Helgigöngu frá Bessastaðakirkju kl. 16:00. Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari les valda Passíusálma og Kór Vídalínskirkju syngur undir stjórn Jóhanns Baldvinssonar organista. Þetta er hlýleg og uppbyggileg athöfn sem kemur kirkjugestum í hinn sanna anda föstudagsins langa.

Gott er fyrir göngufólk að huga í tíma hvernig það hyggst fara aftur heim að athöfn lokinni. Þegar veðrið er gott hafa sumir stundum viljað ganga til baka. Aðrir hafa komið bílum sínum á planið hjá Garðakirkju áður en ganga hefst eða útvegað sér far á annan hátt.

Myndirnar hér að neðan eru frá göngunni sem farin var á föstudaginn langa á síðasta ári. Þú getur stækkað þær með því að smella á eina.

Vídalínskirkja, Garðakirkja
Föstudagur 18. apr
15:00
Vilborg Ólöf Sigurðardóttir
Jóhann Baldvinsson
Kór Vídalínskirkju
Facebook
LinkedIn
Tölvupóstur
Prenta

Hafa samband