Comments are off for this post

Tónleikar í Vídalínskirkju sunnudaginn 14. maí kl. 17.00

Sunnudaginn 14. maí verða haldnir veglegir kórtónleikar í Vídalínskirkju í Garðabæ. Þar sameina tveir nágrannakórar, Kór Vídalínskirkju í Garðabæ og Kór Kópavogskirkju í Kópavogi, krafta sína.

Tilefni þessara tónleika er að vorið 2022 var Jóhann Baldvinsson organisti og kórstjóri í Vídalínskirkju sæmdur nafnbótinni heiðurslistamaður Garðabæjar. Hann vildi því standa fyrir tónleikum til að þakka þennan heiður en upp úr áramótum kom upp sú hugmynd að hafa samstarf við Kór Kópavogskirkju, sem Lenka Mateova stjórnar, til að gera tónleikana enn veglegri. Kór Vídalínskirkju hafði verið að æfa Messu í G dúr eftir Fr. Schubert en Kór Kópavogskirkju var að æfa A Little Jazz Mass eftir Bob Chilcott. Það fór því vel saman að æfa og flytja þessar tvær ólíku messur á sömu tónleikum, en textinn í þeim báðum er sá sami.
Auk kóranna tveggja koma fram þrír einsöngvarar úr röðum kórfélaga, Ólafía Línberg Jensdóttir sópran, Árni Jón Eggertsson tenór og Bergvin Þórðarson bassi. Í Schubertmessunni leikur hljómsveit með kórunum en í jazzmessunni leikur bæjarlistamaður Garðabæjar 2010, jazzpíanistinn Agnar Már Magnússon og Birgir Steinn Theodórsson kontarbassaleikari. Stjórnendur eru þau Jóhann Baldvinsson og Lenka Mateova.

Tónleikarnir eru eins og áður segir sunnudaginn 14. maí kl. 17.00 í Vídalínskirkju og er aðgangur ókeypis.

Hér er viðtal við stjórnendurna í Garðapóstinum.

 

Stjórnendur kóranna, Jóhann Baldvinsson og Lenka Mateova ásamt glaðbeittum kórfélögum.
Einbeiting á æfingu. Jóhann stjórnar og Lenka leikur undir

Comments are closed.