Comments are off for this post

Fermingarbörnin leysa stórt verkefni

Við erum með frábært verkefni á hverju ári í fermingarfræðslunni, en það er að safna fyrir vatnsbrunnum í Úganda og kynnast aðstæðum barna þar. Öll fermingarbörn í Þjóðkirkjunni fara af stað út í skammdegið og knýja dyra hjá landsmönnum og bjóða fólki að styrkja þetta mikilvægi verkefni sem felst í því að bjarga mannslífum.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur um nokkurra ára skeið stutt verkefni í þremur héruðum í Úganda og það snýst um að draga úr tíðni HIV-smits og áhrifum alnæmis á samfélagið. Sá hluti sem Hjálparstarfið styður snýst um að hjálpa börnum sem misst hafa báða foreldra úr alnæmi og búa ein. Áhersla er á að bæta lífsskilyrði þeirra með því að reisa handa þeim íbúðarhús með grunnhúsbúnaði og eldaskála með sérhönnuðum hlóðum sem spara eldsneyti og helstu áhöldum. Hreinlæti á heimilum er aukið með fræðslu og með því að gera kamra og hreinlætisaðstöðu. Einnig er gengið frá því að börnin hafi betri aðgang að hreinu vatni með því að koma upp safntönkum við hús.  Fermingarbörnin okkar fá kynningu á þessu mikilvæga starfi og safna peningum fyrir börnin í Úganda og það safnast margar milljónir á hverju ári frá öllum fermingarbörnum kirkjunnar og við hvetjum þau til að taka þátt í hjálparstörfum bæði hér heima og erlendis ef þau hafi tækifæri til í framtíðinni.Fermingarbörnin í Garðabæ ganga í hús 1.-4 nóvember og biðja bæjarbúa að styðja mikilvægt verkefni þar sem mannslífum er bjargað.

Kær kveðja frá prestum og starfsfólki Vídalínskirkju.

Comments are closed.