
Starf Vídalínskirkju er fjölþætt. Við sem hér störfum leggjum okkur fram við að þjóna bæjarbúum af alúð. Í slíkri þjónustu er ávallt þörf fyrir gott fólk. Það er nefnilega einstaklega gefandi að rækta tengslin við sóknarkirkjuna sína því hún er mannlífstorg þar sem fólk fær tækifæri til að rækta sinni innri mann og vitundarsamband sitt við æðri mátt.
Ef þú hefur þú áhuga á að tilheyra gefandi samfélagi og efla tengsl þín við kirkjuna getur þú orðið sjálfboðaliði 1 – 4 sinnum á ári og tilheyrt góðum hópi sem við veljum að kalla „Vildarvini Vídalínskirkju“.
Fyrsta verkefni Vildarvina verður miðvikudaginn 7. september n.k. Þá komum við saman í Vídalínskirkju kl. 17:30, fáum hvatningu frá sóknarprestinum og örstutta kynningu á hlutverki Vildarvina. Förum síðan í göngutúr um bæinn og dreifum nýja messubæklingnum til eldri borgara bæjarins. Þegar við komum til baka eigum við ljúfa stund saman þar sem boðið verður upp á pizzur, drykki og spjall. Þá gefst tækifæri til að ræða hlutverk Vildarvina og hvort áhugi sé á að hópurinn skipuleggi göngutúra á sunnudögum.
Verið öll velkomin!