
Í dag, þriðjudaginn 15. mars 2022, er þess minnst að 95 ár eru liðin frá fæðingu sr. Braga Friðrikssonar en hann lést 27. maí 2010. Sr. Bragi var sóknarprestur í Garðaprestakalli og prófastur í Kjalarnessprófastsdæmis fram til ársins 1997.
Tvær kveðjuathafnir voru haldnar í Garðasókn sr. Braga til heiðurs er hann lét af embættum sínum. Sú fyrri í Garðakirkju þann 1. júní 1997. Þann dag var nákvæmlega 31 ár liðið frá því að hann tók við embætti sóknarprests. Síðari kveðjuathöfnin var í Vídaínskirkju viku síðar eða 8. júní. Báðar athafnirnar voru þétt settnar og stóð fólk með veggjum. Í Vídalínskirkju var opnað inn í safnaðarheimilið og dugði það vart til. Myndband frá athöfninni í Vídalínskirkju má finna á Facebook-síðu kirkjunnar. Smelltu hér til að horfa.
Í Endurskini, safnriti yfir ræður og ávörp sr. Braga ritaði hann síðar um athöfnina: „Ég bar, að allt sem unnið yrði mætti fegra og göfga mannlíf allt í Garðabyggð.“
Í lok kveðjuathafnarinnar í Vídalínskirkju mælti hinn aldni klerkur, kirkjuhöfðinginn mikli: „Allt mitt starf, allan hug minn, alla þökk mína, alla boðun mína og kveðjumál fel ég í orðum séra Friðriks Friðrikssonar í sálmi, sem ég hef oftast látið syngja og segir allt, sem mér í brjósti bjó og býr:
Vér stöndum á bjargi, sem bifast ei má
hinn blessaði Frelsari lifir oss hjá.
Amen.“
Sr. Bragi Reynir Friðriksson fæddist á Ísafirði 15. mars 1927. Hann lést á Landspítalanum 27. maí 2010. Árið 1966 tók sr. Bragi við Garðaprestakalli og árið 1977 var hann skipaður prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi. Þegar sr. Bragi varð 70 ára, árið 1997, var honum veitt lausn frá prests- og prófastsembætti, lögum samkvæmt. Sr. Bragi var mikill félagsmálamaður og sinnti ýmsum trúnaðar-og félagsstörfum um ævina. Hann var fulltrúi þjóðkirkjunnar í Alþjóðakirkjuráðinu 1954, meðstofnandi Stjörnunnar í Garðabæ árið 1960 og formaður Þjóðræknisfélags Reykvíkinga árin 1974-1980. Sr. Braga var veitt Paul Harris Fellow-viðurkenning Rótarýhreyfingarinnar 1996. Árið 1997 varð hann heiðursfélagi Rótarýklúbbsins Görðum og Skátafélagsins Vífils. Árið 2010 var hann kjörinn heiðursfélagi Verndar fangahjálpar. Sr. Bragi var heiðursborgari Garðabæjar enda naut hann mikillar virðingar fyrir störf sín.