Comments are off for this post

Hátíðarguðsþjónusta til minningar um sr. Braga.

Flestir Garðbæingar sem komnir eru yfir miðjan aldur muna eftir sr. Braga Friðrikssyni sóknarpresti í Garðaprestakalli, og prófasti í Kjalarnessprófastsdæmi. Sr. Bragi var þjóðkunnur maður á sinni tíð vegna þátttöku sinnar í kirkjulífinu og samfélaginu í Garðahreppnum síðar Garðabæ. Hann var svipmikill og stór á velli – og í verki. Hann kom víða við í sveitarfélaginu, var drifkraftur bæði í kirkju, skátahreyfingunni og íþróttum. Sr. Bragi var svo sannarlega máttarstólpi í bæjarfélaginu sem var að byggjast upp. Dugnaður hans og mannleg hlýja heillaði fólk sem og traust og góð kímni. Segja má að sr. Bragi hafi verið lifandi goðsögn á sínum tíma og margir sem eiga ljúfar minningar af honum.

Hrannar Bragi Eyjólfsson lögfræðingur, sem er að rita ævisögu sr. Braga afa síns, flytur erindi og Hilmar Ingólfsson fv. skólastjóri flytur ávarp.

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir núverandi sóknarprestur í Garðaprestakalli mun þjóna fyrir altari ásamt nokkrum af samstarfsprestum sr. Braga. Sr. Henning Emil Magnússon leikur á bassa, Atli Guðlaugsson og Öyvind Lapin Larsen leika á trompet. Kór Vídalínskirkju syngur undir stjórn Jóhanns Baldvinssonar.

Hver var sr. Bragi Reynir Friðriksson?
Hann fæddist á Ísafirði 15. mars 1927 og lést 27. maí 2010. Hann gekk hinn hefðbundna menntaveg og varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1949 og lauk guðfræðiprófi 1953. Sr. Bragi var vígður 1953 til prestsþjónustu í Vesturheimi og kom síðar heim 1956 og varð framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur 1957-1964 og á sama tíma formaður Æskulýðsnefndar þjóðkirkjunnar. Hann var settur til prestsþjónustu meðal Íslendinga á Keflavíkurflugvelli 1964 (Keflavíkurflugvallarprestakall var til í fjögur ár og sr. Bragi var annar prestanna sem því þjónaði). Honum var svo veitt Garðaprestakall á Álftanesi 1966. Prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi varð hann 1977. Sr. Bragi lét af störfum sjötugur að aldri 1997. Jafnhliða prestsskap fékkst sr. Bragi við kennslu og sinnti margvíslegum félagsmálastörfum. Hann byggði upp söfnuðinn í Garðabæ og tókst að laða fólk til verka með hlýju sinni og áhuga. Æskulýðs – og íþróttamál voru honum mjög hugleikin og ruddi hann brautina í þeim efnum – var sannkallaður æskulýðsforingi. Hann var ötull frumherji í vaxandi bæjarfélagi og sókn. Sr. Braga var sýndur margvíslegur sómi á lífsleiðinni og var hann meðal annars riddari hinnar íslensku fálkaorðu, heiðursfélagi í Stjörnunni og heiðursborgari Garðabæjar. Eiginkona sr. Braga var Katrín Eyjólfsdóttir og áttu þau fjögur börn. Katrín lifði mann sinn en lést fyrr á þessu ári. Áður átti sr. Bragi tvíbura með Ólafíu Margréti Guðjónsdóttur (d. 1996) og önduðust þeir á fyrsta ári, 1946.

Comments are closed.