Comments are off for this post

Kór Vídalínskirkju hefur vetrarstarf sitt og nýr prestur kynntur

Sunnudaginn 19. september verður guðsþjónusta í Vídalínskirkju kl. 11.00. Þar mun nýr prestur þjóna og fullskipaður Kór Vídalínskirkju syngja.

Sr. Sveinbjörn R. Einarsson er tímabundið kominn til starfa við Garðasókn. Hann hóf störf 1. september sl. en þetta verður í fyrsta skipti sem hann þjónar í Vídalínskirkju. Sveinbjörn var áður sóknarprestur í Þingeyraklaustursprestakalli með aðsetur á Blönduósi.
Hlutverk kórs Vídalínskirkju er að syngja við helgihald í Vídalíns- og Garðakirkju og standa fyrir tónleikum. Kórinn hóf æfingar þessa starfsárs í lok ágúst og er kominn í gott form. Söngfélagar eru nærri 40 en alltaf er gott að fá nýtt og öflugt fólk til liðs við hann. Mánaðarlega syngur fullskipaður kór við messu og sú fyrsta verður næsta sunnudag. Meðal þess sem sungið verður eru verk eftir Bach og Schütz og raddsetning eftir Róbert A. Ottósson. Stjórnandi kórsins og organisti er Jóhann Baldvinsson.

Það er því kjörið tækifæri að koma í Vídalínskirkju á sunnudaginn, hlusta á nýjan prest og hlýða á fallega kórtónlist.

Sunnudagaskólinn er á sama tíma í kirkjunni og í safnaðarheimilinu. Í Urriðaholti hefst sunnudagaskólinn klukkutíma fyrr eða kl. 10.00.

Allir velkomnir!

Comments are closed.