Comments are off for this post

Vídalínsmessa flutt sunnudaginn 25. september

Næstkomandi sunnudag, 25. september kl. 11.00, verður sérstök messa í Vídalínskirkju! Í stað venjulegrar messu verður flutt Vídalínsmessa, sem Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi fyrir Vídalínskirkju 2006. Flytjendur verða söngfokkurinn Hljómeyki, einsöngvararnir Freyja Jónsdóttir og Þorbjörn Rúnarsson og hljómsveit, en stjórnandi tónlistarinnar verður Hreiðar Ingi Þorsteinsson. Prestur verður sr. Jóna Hrönn Bolladóttir.
Sunnudagaskólinn verður í sfnaðarheimilinu á sama tíma.

Á 10 ára vígsluafmæli Vídalínskirkju árið 2005 ákvað sóknarnefnd Garðasóknar eftir tillögu organistans Jóhanns Baldvinssonar að fá Garðbæinginn Hildigunni Rúnarsdóttur til að semja Vídalínsmessu og skyldi texti messunnar vera byggður á textum Jóns Vídalíns biskups.

Útkoman varð sú að notaður var texti hinnar klassísku latnesku messu en á milli messuliða voru einsöngkaflar þar sem texti úr Vídalínspostillu var tónsettur. Vídalínsmessa var síðan frumflutt í tilefni af 340 ára afmæli Jóns Vídalíns í mars 2006 af Kór Vídalínskirkju, einsöngvurunum Hallveigu Rúnarsdóttur og Ólafi Rúnarssyni og hljómsveit en stjórnandi var Jóhann Baldvinsson.

Haustið 2019 ákvað söngflokkurinn Hljómeyki að taka verkið til flutnings og fara með á tónlistarhátíð erlendis 2020 og því þótti tilvalið að fá Hljómeyki til að flytja verkið í Vídalínskirkju þegar þess væri minnst að 300 ár væru liðin frá andláti Jóns Vídalíns. Upprunalega átti að flytja messuna í lok febrúar en vegna covid19 var flutningnum frestað þar til nú.
Vídalínsmessan verður flutt sem hefðbundin messa sunnudaginn 27. september kl. 11.00 í Vídalínskirkju og verður einnig útvarpað á Rás 1 á RUV. Flytjendur eru eins og áður sagði sönghópurinn Hljómeyki, einsöngvararnir Freyja Jónsdóttir og Þorbjörn Rúnarsson og hljómsveit, en stjórnandi tónlistarinnar verður Hreiðar Ingi Þorsteinsson en sr. Jóna Hrönn Bolladóttir verður prestur.

Comments are closed.