Comments are off for this post

17. júní í Vídalínskirkju ræða Hrefnu Hlynsdóttur

Góðan dag og gleðilega þjóðhátíð!

 

Ég heiti Hrefna og útskrifaðist úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ núna fyrir stuttu. Það sem tók við eftir útskriftina voru tugir spurninga um hvernig framtíðin myndi líta út hjá mér og öllum sem útskrifuðust með mér þennan dag. Þessi spurning getur þvælst svolítið fyrir mér vegna þess að það er í raun engin leið til þess að vita hvernig framtíðin verður. Við fengum svo sannarlega að finna fyrir því þegar Covid-19 heimsfaraldurinn tók yfir og gerði líf okkar allt öðruvísi en við bjuggumst við. Framhaldsskólar og háskólar voru fluttir í fjarnám og vinnuaðferðir með öðruvísi sniði en vanalega. Það sem er magnað við þessar breytingar er að enginn átti von á þeim þegar árið hófst. Margir höfðu gert áætlanir sem gjörbreyttust nánast fyrirvaralaust og allt í einu voru allir heima hjá sér og eina dagskrá dagsins voru göngutúrar, já þeir voru ansi margir göngutúrarnir í vor.

Árið 2020 hefur svo sannarlega verið eftirminnilegt ár, ég man eftir því að 1. janúar sagði ég að þetta ár myndi verða besta ár sem ég myndi upplifa. Það var nefnilega svo margt spennandi framundan, ég var að fara að sýna stórsöngleikinn REIMT með leikfélaginu í skólanum, syngja í söngkeppni framhaldsskólanna, gera lokavekefni í leiklist, útskrifast, fara til Mexico í útskriftarferð og njóta lífsins í botn.

 

 

Það leið ekki á löngu þar til ljóst var að allt myndi breytast vegna samkomubanns. Sýningarnar á söngleiknum okkar urðu bara tvær, söngkeppninni var frestað, lokaverkefni í leiklist tekið upp sem stuttmynd í stað leikverks með áhorfendum, útskriftarathöfn með engum aðstandendum og mexico ferðinni frestað um eitt ár. Nú reyndi heldur betur á. Vonbrigðin voru mikil, að sjálfsögðu. Búið að leggja mikla vinnu, tíma og krafta í viðburði vorannar. Ég verð að viðurkenna að mér fannst lífið ansi ósanngjarnt, af hverju núna af hverju þurftum við akkúrat að lenda í þessu á þessum tímapunkti.

Svo verður eitthvað sem er mjög óeðlilegt og fordæmalaust smám saman eðlilegra. Allir þurftu að aðlaga sig að breyttu samfélagi, breyttum tímum, breyttum aðstæðum. Þá skipta viðhorf okkar miklu máli. Hvernig við tökumst á við erfiðleikana, áskoranir og hluti sem við höfum einfaldlega ekki stjórn á. Ég sem hélt að þetta myndi verða ömurlegur tími en svo kom í ljós að þetta var nú ekki svo slæmt. Kennararnir fundu nýjar leiðir til að kenna okkur og passa upp á að allir tækju þátt og liði vel. Tæknin var nýtt sem aldrei fyrr í skólastarfinu og nýjar leiðir þróaðar til að hafa umræðutíma og hittast án þess þó að vera saman.

Við lærðum mikið í Covid, það slaknaði einhvern veginn á fólki, umferðin varð minni, fólk hugsaði um þá sem voru einir, passaði upp á viðkvæma og var meira heima hjá sér. Viðburðum var frestað en það kemur að þeim seinnna, jú við fáum að komast í útskriftarferð. Söngleikurinn okkar sem við lögðum svo mikla vinnu í verður sýndur aftur. Við finnum leiðir.

Á sama tíma finnur maður fyrir þeim forréttindum sem við búum við hér á Íslandi. Hér var tekist á við Covid af festu og með samstöðu, það skilaði sér í góðum árangri. Nú eru milljónir manna að mótmæla í Bandaríkjunum vegna kynþáttafordóma. Hræðilegir atburðir áttu sér stað. Um daginn voru friðsæl mótmæli vegna þessara atburða á austurvelli og þar heyrði ég margar sögur, frá ræðumönnum mótmælanna, um fólk hér á Íslandi sem sýndi þeim fordóma bara vegna þess að húðlitur þeirra var öðruvísi.

Ég verð að viðurkenna að Þetta vissi ég ekki, ég hélt að við íslendingar værum komnir lengra, en það er greinilegt að kynþáttafordómar þrífast enn á íslandi eins og annars staðar í heiminum. Umræðan hefur svo sannarlega opnast mikið seinustu vikur og vonandi getum við tekist á við kynþáttafordóma alveg eins og við tókumst á við Covid og stefnt að því að útrýma þeim í heild sinni. Við þurfum að geta sett okkur í spor annarra, hlustað og lært af reynslu þeirra og gert betur, miklu betur t.d. í því hvernig við komum fram við aðra, hvernig fyrirmyndir við erum og hvernig vinir.

Svona vandamál sýna okkur hversu mikilvæg samstaða er, til að bæta samfélagið þannig að allir fái notið sín og borin er virðing fyrir fjölbreytileikanum.

Við Íslendingar getum verið stolt af þeim afrekum sem við höfum náð í gegnum tíðina en gleymum ekki að halda áfram að krefjast jafnréttis, réttlætis og samstöðu.

Í dag fögnum við þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga með stæl, aðeins rólegri en oft áður, í ár sleppum við skrúðgöngunum og hoppuköstulunum en njótum engu að síður dagsins í samvistum við okkar nánasta fólk með gleði og þakklæti í huga.

Ég er mikið spurð þessa dagana hvað ég ætli nú að gera þegar stúdentsprófið er í höfn, hef ekki hugmynd, ég ætla að byrja á því að njóta sumarsins, njóta lífsins og spá í framtíðinni í ró og næði. Möguleikarnir eru margir, heimurinn er galopinn fyrir ungu fólki sem ætlar að mennta sig. Við þurfum að muna að lifa í núinu og hafa ekki of miklar áhyggjur af fortíð og framtíð, eins og við Íslendingar segjum svo gjarnan, þetta reddast. Til hamingju með daginn íslendingar, framtíðin er björt, ég er bjartsýn. Takk fyrir mig og njótið dagsins.

 

 

 

 

 

 

Comments are closed.