Comments are off for this post

Kveðja til Garðbæinga

Kæru Garðbæingar!
Við sendum ykkur hlýjar kveðjur frá Vídalínskirkju.

Við viljum láta ykkur vita að við erum með Vídalínskirkju opna alla daga frá kl. 10:00-14:00. Þar er hægt að eiga kyrrðar- og bænastund. Kirkjan er að sjálfsögðu þrifin á hverjum degi og sprittbrúsar í anddyrinu.

Bænahópur kvenna er á bænavaktinni og kyrrðarbænin á miðvikudögum er með öðru sniði. Fram að páskum mun Íhugunarkapellan vera með kyrrðarbæn í gegnum fjarfundarbúnað kl. 17:30 alla virka daga. Fólk finnur íhugunarkapelluna á fésbókinni okkar sem viðburð og finnur þar slóð sem það ýtir á og í framhaldinu samþykkir að notast við hljóð og mynd og er þá orðið hluti af hópnum sem ætlar að iðka saman. Ef fólk vill fá kynningu á kyrrðarbæninni áður getur það skráð sig inn kl. 17:15 og þá verða leiðbeinendur tilbúnir til að segja frá því hvernig kyrrðarbænin fer fram. Kyrrðarbænin er iðkuð í 20 mínútur í senn. Síðan verður boðið upp á biblíulega íhugun (lectio divina) strax á eftir. Hún fer þannig fram að lesinn er stuttur texti úr Biblíunni og fólk fær einföld fyrirmæli um hvernig það getur tileinkað sér textann. Einnig verður boðið upp á ýmislegt annað uppbyggilegt.
Kyrrðarbænin er gömul íhugunaraðferð sem hefur verið iðkuð innan kirkjunnar síðan á fjórðu öld. Kyrrðarbænin fer fram í þögn og hefur þann ásetning að samþykkja nærveru Guðs og verkan heilags anda hið innra með sér.

Næsta sunnudag, 22. mars, verður útvarpsguðsþjónusta kl. 11:00 frá Vídalínskirkju. Við munum leggja okkur fram um að glæða von, trú og kærleika í beinni útsendingu. Við í kirkjunni erum að finna leiðir til að dreifa efni til fólks. Við ætlum að streyma helgistundum á visir.is kl. 17:00 á sunnudögum og við hér í Vídalínskirkju sjáum um stundina á pálmasunnudag. Einnig er verið að taka saman sunnudagaskólaefni sem verður sent út á netinu fyrir börnin. Við munum á næstunni nota mest fésbókarsíðuna til að koma skilaboðum til fólks.

Fermingar falla niður á þessu vori og við erum búin að setja upp nýjar athafnir í lok ágúst og byrjun september og ný skráning hófst á þriðjudaginn var og nú þegar hefur 85% af fermingarfjölskyldum skráð sig á nýjar athafnir og við skulum horfa til þess í gleði að eiga þessa daga framundan. Við setjum svo fljótlega upp fermingardagana 2021 en fyrirhuguð skráning í þær athafnir er 4. maí kl. 09:00 hér á heimasíðu Garðasóknar.

Það þarf að halda áfram að sálgæta og hugga. Við erum með úthringingar til fólks sem við vitum að hefur ekki sterkt félagslegt bakland og þarf á sálgæslu að halda.

Svo eru það kistulagningar og útfarir. Í ljósi samkomubanns, sem miðast við innan við 100 manns og með tveggja metra fjarlægð, er margt breytt og fleiri útfarir í prestakallinu hafa verið með því sniði að annað hvort er kistulagning og útför saman og bara miðað við nánustu ástvini eða fólk hefur haft litla kistulagningu og valið að vera með minningarathafnir seinna til að forðast að kalla margt fólk saman. Þarna þarf að finna leiðir til að eiga innihaldsríka kveðjustund en einnig að vernda fólk frá veikindum.

Já, nú gildir samlíðun og samábyrgð. Við erum öll almannavarnir og erum kölluð til að halda utan um hvert annað. Nú skulum við nota tímann til að vera í tengslum í gegnum allar þessar nýju leiðir 21. aldar til að uppörva og hugga, við erum ekki bara öll almannavarnir heldur öll sálusorgarar.

Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. (1. Jóhannesarbréf 4.16)

Kær kveðja
Starfsfólk Vídalínskirkju.

Comments are closed.