
Sunnudaginn 29. september kl. 20:00 verður íhugunarguðsþjónusta með tónlist AdHd í Vídalínskirkju. Þar verður lögð áhersla á að vera í vitund sem er íhugul um leið og hlýtt er á tónlist AdHd. Hver og einn kirkjugestur fær að upplifa stundina á eigin forsendum. Það er afar mikilvægt að rækta sitt andlega líf og veita hlutum athygli, njóta líðandi stundar og kyrra hugann. Það hefur verið sýnt fram á að ef tekinn er frá tími í andlega rækt og íhugun styður það við heilsuna og styrkir fólk í að takast á við það sem mætir því í lífinu. Hljómsveitin AdHd hefur verið starfandi um nokkuð skeið og er skipuð Ómari Guðjónssyni gítarleikara, Óskari Guðjónssyni saxófónleikara, Magnúsi Tryggvasyni Eliassen trommara og Tómasi Jónssyni hljómborðsleikara.
Í Þjóðkirkjunni hefur verið lögð aukin áhersla á íhugunar- og kyrrðarstarf síðustu árin. Starf þetta er í miklum vexti. Margar kirkjur bjóða t.a.m. upp á kyrrðarbænastundir. Eitt af því sem hefur bæst í flóruna eru íhugunarguðsþjónustur. Þær eru nú á þriðja starfsári og hafa verið haldnar víða. Vídalínskirkja er aðili að samstarfi um íhugunarguðsþjónustur. Tvær þeirra verða tileinkaðar ákveðinni tónlist sem hentar vel við íhugun. Sú fyrri verður með tónlist hljómsveitarinnar AdHd. Síðari stundin verður tileinkuð tímamótaverki John Coltrane sem nefnist Love Supreme. Áherslan í íhugunarguðsþjónustum er á kyrrð, bæn, íhugun og andlega næringu fyrir komandi viku.