Comments are off for this post

Verðlaunalag og ljóð flutt á 17. júní

Það er hefð fyrir því í Garðabæ að vera með helgistund í Vídalínskirkju á Þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní. 
Í helgistundinni í ár syngur Kór Vídalínskirkju lagið Landið mitt eftir Jóhann G. Jóhannsson. Jóhann samdi bæði lagið og ljóðið og vann það fyrstu verðlaun í samkeppni um kórlag í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands 1. desember 2018 og var það frumflutt í Hörpu þann dag.

Ennfremur verður sungið Hver á sér fegra föðurland en það lag Emils Thoroddsens við ljóð Huldu vann til verðlauna í samkeppni sem efnt var til í tilefni af lýðveldisstofnun Íslands og var frumflutt á Þingvöllum fyrir 75 árum, 17. júní 1944.

Á milli þessara tveggja laga flytur nýstúdentinn Guðrún Kristín Kristjánsdóttir ávarp nýstúdents.

Í helgistundinni verður einnig stúlka fermd og í lokin verður Þjóðsöngurinn sunginn.
Sr. Henning Emil Magnússon verður prestur, organisti og kórstjóri verður Jóhann Baldvinsson og skátar úr skátafélaginu Vífli í Garðabæ standa heiðursvörð.

Við hvetjum Garðbæinga til að fjölmenna í helgistundina í Vídalínskirkju, sem hefst kl. 13.00, og taka síðan þátt í skrúðgöngu sem hefst að stundinni lokinni á hátíðarsvæðið við Garðatorg.

Comments are closed.