Laugardaginn 30. mars verður svokölluð kirkjuorgelganga milli Hafnarfjarðarkirkju og Garðakirkju. Gengin verður hin forna kirkjuleið frá Hafnarfirði að Görðum á Álftanesi og leiðsögumaður verður Jónatan Garðarsson.
Þekking Jónatans á þessum slóðum er margrómuð og göngur með honum einstök upplifun. Brottför er frá Hafnarfjarðarkirkju kl. 10:00 og áætluð koma að Garðakirkju kl. 12:30. Hressing verður í boði í Garðakirkju og stuttir orgeltónleikar þar sem Guðmundur Sigurðsson, organisti Hafnarfjarðarkirkju, leikur orgelverk úr Hafnarfirði og Garðabæ í tilefni af 10 ára afmæli orgela Hafnarfjarðarkirkju og yfirvofandi 50 ára afmæli orgels Garðakirkju.
Hægt verður að kaupa hina nýju orgelplötu með orgelleik Guðmundar Sigurðssonar Haf á staðnum.
Eftir orgeltónleikana verður boðið upp á rútuferð til baka frá Garðakirkju í Hafnarfjarðarkirkju.
Allir hjartanlega velkomnir og þátttaka er ókeypis!
