
Nýr prestur vígður til þjónustu
Í Garðabænum þjóna þrír prestar. Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur hefur þjónað frá því í desember 2005 og Hans Guðberg Alfreðsson prestur var ráðinn til þjónustunnar árið 2009, þau tímamót urðu á þessu hausti að Friðrik J. Hjartar prestur lét af embætti að eigin ósk eftir nærri 19 ára þjónustu. Kjörnefnd þjóðkirkjunnar í Garðabæ fékk það hlutverk að velja eftirmann hans núna í lok september og var Henning Emil Magnússon valinn til að gegna prestsþjónustu í Garðaprestakalli frá 1. október. Hann er fæddur í Keflavík árið 1973. Henning Emil er kennari og guðfræðingur að mennt og hefur tekið virkan þátt í barna- og æskulýðsstarfi í þrjátíu ár. Hann hefur starfað við kennslu í fjórtán ár og tekið þátt í ýmsum þróunarverkefnum á því sviði. Hann er kvæntur Bylgju Dís Gunnarsdóttur söngkonu og eiga þau tvö börn, Ísak söngnema og Ingu Steinunni sem stundar nám í MH. Henning Emil verður vígður til prestsþjónustunnar í Dómkirkjunni sunnudaginn 14. október kl. 11.00 og eru Garðbæingar hjartanlega velkomnir til þeirra athafnar en hans fyrsta messa í Garðabænum verður í Vidalínskirkju sunnudaginn 21. október kl. 11.00.