Comments are off for this post

Ávarp nýstúdents

Góðan dag og gleðilega þjóðhátíð!

 

Ég brauðskráðist sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands í lok maí. Ég var í fyrsta hópnum sem lauk stúdentsprófi frá  Verzló á þremur árum. Ég var vel undirbúin fyrir námið í framhaldsskóla eftir  að hafa stundað nám í þremur skólum hér í bænum, Barnaskóla Hjallastefnunnar, Sjálandsskóla og Garðaskóla. Á framhaldsskólaárunum mínum eignaðist ég góða vini sem ég er viss um að verða alltaf hluti af lífi mínu. Vinir, fjölskylda og góð samskipti  skipta miklu máli.

 

Í dag ætla ég að ræða um áhrif samfélagsmiðla á ungt  fólk. Það er oft talað um það að við unga fólkið séum alltaf með símann okkar í hendinni. Sumir segja jafnvel að tæknin hafi tekið völdin í lífi okkar.

 

Talað er um samfélagsmiðla sem eitraðan áhrifavald sem minnkar lífsgæði fólks. Það þarf ekki annað en að fletta upp orðinu ,,samfélagsmiðlar“ á netinu til þess að fá góða sýn á það hvernig litið er á þennan samskiptamiðil. ,,Samfélagsmiðlar og kvíði“ er það fyrsta sem kemur upp þegar leitað er upplýsinga um samfélagsmiðla.

 

Hvernig stendur á þessu? Getur virkilega verið að svo óraunverulegt fyrirbæri geti haft þessi gríðarlegu áhrif á okkur?

 

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að mikil notkun samfélagsmiðla geti aukið kvíða og andlega vanlíðan. Þar er meðal annars vísað  til þess að í gegnum samfélagsmiðla eigi sér stað stanslaus félagslegur samanburður við glanslíf og glansmyndir annarra.

Komið hefur einnig í ljós að myndrænir samfélagsmiðlar, svo sem Instagram eða Snapchat, hafi verri áhrif á líðan fólks heldur en þeir samfélagsmiðlar sem ekki eru jafn myndrænir.

 

Það sem veldur þessari vanlíðan og kvíða er þessi sýndarveruleiki og listin að geta látið líf sitt virðast margfallt betra og viðburðaríkara en það í rauninni er. Þannig skapa margir sýndarveruleika af sjálfum sér og lífi sínu á þessum miðlun, sem er allt annar en raunverulegt líf þeirra.

 

Hvort sem um er að ræða Snapchat, Instagram eða aðra samfélagsmiðla er aðal tilgangur notenda í raun að auglýsa sjálfan sig og líf sitt. Þetta getur orðið að nokkurs konar vítahring. Dæmi um það er þegar sú  mynd sem einhver tiltekinn einstaklingur gefur af sér á Instagram er skoðuð þá lítur lífið hjá viðkomandi út fyrir að vera jafnvel fullkomnara en þér datt í hug að væri möguleiki á.

 

Þú ákveður þá ef til vill að birta mynd sem var tekin af þér í gær þegar þú fórst út að borða með vinum þínum og áttir fábært kvöld. Myndin fær mjög góðar móttökur, mörg ,,like“ og margir skrifa við myndina hvað þú sért alltaf falleg og glæsileg. Þetta gefur þér augnablik af tilfinningu sem er eintóm gleði og viðurkenning, þú verður ánægð með sjálfa þig. Sama kvöld ert þú að skoða samfélagsmiðla hjá öðrum einstaklingum. Þar eru stelpur og strákar í stórum vinahópum að fagna árshátíð eða afmælum, stelpur í sundfötum á ströndum Hawaii með líkama sem þig hafði ekki einu sinni dreymt um. ,,Hvað í ósköpunum eru þær að borða til að líta svona út?!“ er það fyrsta sem kemur upp í huga þinn. Brátt ferð þú að leggja meiri áheyrslu á að taka sjálf myndir af þér ef þú hugsanlega sérð tækifæri á því að ná góðri mynd sem gæti ýtt undir aðdáund annarra á lífi þínu. Þetta getur valdið því að flest allar þínar hugsanir fara að snúast um það hvernig þú getur látið lífið þitt líta út fyrir að vera svo frábært að það sé lyginni líkast, sem það auðvitað í raun og veru er.

 

Samfélagsmiðlar valda því að einstaklingar bera sig stanslaust saman og þróa með sér lægra sjálfsmat því þeir eru alltaf að berjast við samanburð sem ómögulegt er að sigra. Einstaklingar setja þannig óraunhæfar kröfur á sjálfa sig. Þar sem ekkert verður nokkur tímann nógu gott eða kemur ,,eins vel út og hjá hinum“ getur þetta leitt til vanlíðunar og jafnvel sjálfseyðingar. Rannsóknir hafa sýnt að pressan frá samfélagsmiðlum eykur líkur á átröskun og alvarlegum áhyggjum af eigin líkamsímynd.

 

Merkilegt er að þegar um slæmar afleiðingar af samfélagsmiðlum er að ræða er nánast eingöngu rætt um að áhrif þeirra snerti ungar stúlkur. Það er áhugavert að skoða hvað veldur þessu. Almennt er talið að stelpur verji meiri tíma á samfélagsmiðlum en strákar. Samkvæmt rannsókn við Indiana háskóla eru strákar líklegri til þess að birta myndir af því sem þeir hafa afrekað en stelpur líklegri til þess að birta sætar eða flottar myndir af sjálfum sér.

 

Þó hafa nokkrar kenningar komið fram um að það sé ekki tíminn sem fer í notkun samfélagsmiðlanna sem hefur mest áhrif á notandann heldur hugarfar viðkomandi t.d.  til hvers samfélagsmiðlar eru notaðir og hvaða mynd af sér vikomandi vill gefa þar.

 

Aukinn kvíði, vanlíðan og þunglyndi meðal ungmenna af völdum samfélagsmiðla er orðið verulegt áhyggjuefni.  Mikil skjánotkun eykur líkur á svefnleysi og það ýtir undir vanlíðan.

 

Þessi stöðuga útlitspressa og þörf fyrir viðurkenningu á sjálfum sér í gegnum samfélagsmiðla er komin fram úr öllu eðlilegu hófi. En hvað er til ráða? Það er mikilvægt að halda áfram að opna á þessa umræðu. Með opinni umræðu kemur vandamálið fram og það er fyrsta skrefið til að hægt sé að vinna með það og leita lausna.

 

Ungt fólk verður stöðugt meðvitaðra um hvað virkilega skiptir máli í lífinu og að ekki sé allt sem sýnist. Samanburður við aðra og hvað þá sýndarveruleika þeirra, er aldrei til þess fallinn að auka eigin lífsgæði.

 

Hver og einn þarf að byggja upp tilveru og sjálfsmynd sem hann eða hún getur  verið sátt við og gæta þess að spegla sig ekki í öðrum heldur eigin lífsgildum og markmiðum.

 

Ég hóf mál mitt á því að tala um mikilvægi vináttu, fjölskyldu og góðra  samskipta.

 

Tölum saman, sýnum hvert öðru áhuga og væntumþykju, njótum þess að vera saman!  Eins og við erum í raunheimum; fullkomin og frábær en um leið mannleg með okkar kostum og göllum.

 

Kæru gestir!
Gleðilega þjóðhátið og njótið dagsins!

Comments are closed.