Comments are off for this post

Hugleiðing Önnu Sifar Farestveit sem hún flutti í messu aldraðra í Vídalínskirju þann 29. Apríl s.l.

Hugleiðing 29. Apríl 2018

 

Mikið hefur verið rætt um metoo byltinguna eða églíka byltinginguna sem hófst í kvikmyndaborginni Los Angelos. Þar opnuðu kvikmyndaleikkonur á umræðu um kynferðislegt ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir af hendi einum valdamesta manni Hollywood. En þessi bylting hefur einnig náð til íslands þar sem margar konur hafa tjáð sig um ofbeldi og áreiti sem þær hafa orðið fyrir á ýmsum vettvangi lífs síns, atvinnu, íþrótta og í hvers dags lífi sínu

Metoo er samfélagslega mikilvægt því ef við viljum virkilega ná fram jafnrétti í samfélaginu þá þurfum við að ræða þessi mál. Ef við viljum búa í góðu samfélagi þá þurfum við að varpa ljósi á hversu kynjað samfélagið er, það vill enginn ala börn sín upp í samfélagi þar sem áreitni er liðin.

Í Biblíunni okkar er einnig fjallað um ofbeldi tengt kynferði kvenna. Ýmsir textar í gamla testamenntinu hafa verið notaðir í gegnum aldirnar til þess að halda konum niðri, þessir textar þeir tala til okkar ennþá í dag, þeir eiga fullt erindi til okkar þótt gamlir séu. Það er mikilvægt að við fjöllum um þessa texta, við megum ekki forðast þá heldur vinna með þá á forsendum okkar hér í dag.

Tamar,dóttir Davíðs konungs var nauðgað af bróður sínum Amnon. Við lesningu á slíkum texta kemst maður ekki hjá því en að hugleiða hvar er guð? Hvers vegna greip hann ekki inn í gang mála þegar Jónadab og Amnon voru að skipuleggja verknaðinn sem leiddi til nauðgunar Tamars. Margar konur í gegnum aldirnar hafa án efa hugleitt líkt og Tamar hvers vegna? Konur sem hafa fylgt Guði en orðið fyrir misnotkun.

Fyrir Tamar var það ekki aðeins verknaðurinn sem var svo hræðilegur heldur einnig það líf sem beið hennar eftir nauðgunina. Hún var spillt eign, hún var ekki meyja lengur.

Í flestum heimshlutum, í dag, er sem betur fer ekki lengur litið á konur sem eign heldur manneskjur. Konur sem verða fyrir samskonar ofbeldi og Tamar eru ekki dæmdar í þessa samfélagslegu glötun eins og hún var samkvæmt lögum Gyðinga, heldur eiga þær möguleika á að lifa lífi sínu áfram, en lífið er þó ekki eins, það verður aldrei eins.

Tamar og Amnon voru börn Davíðs konungs, Davíð var hryggur yfir því að sonur hans hefði nauðgað systur sinni en hann gat ekki reiðst Amnon þar sem hann var frumburður hans. Hver voru skilaboð föðurins til dóttur sinnar, hennar líf var eyðilagt vegna girndar bróður síns. Hún beið þess aldrei bætur og hafði ekki stuðning föður síns, það var hins vegar bróðir hennar Absalon sem gaf henni fullan stuðning sinn. Við þekkjum ekki móður Tamars og vitum því ekki hver viðbrögð hennar voru, fékk Tamar stuðning frá móður sinni?

Það sem slær mann kannski mest við lestur á sögu Tamars er sú réttlæting sem á sér stað í byrjun sögunnar, þar er áréttað hve einstaklega fögur kona Tamar var, það virðist helst vera svo að hún með fegurð sinni hafi einhvern veginn boðið upp á það sem eftir kom. En er það kannski ekki undarlegt að svona virðist þessu því miður oft enn farið í dag. Konur vilja ekki kæra nauðgara sína af því að þær vita hvað bíður þeirra í réttarsalnum þar sem spurningar eins og „í hverju varstu“ „varstu mikið drukkin“ geta hljómað – réttlætir það ofbeldi?

Við höfum fært umræðuna á annað plan í dag með tilkomu samfélagsmiðla. Þær hugrökku konur sem sagt hafa sögu sína í #ég líka byltingunni hafa rutt brautina fyrir konur framtíðarinnar dætur okkar, þetta er ekki í lagi, ofbeldi er aldrei í lagi og á ekki að líðast og það á ekki að þegja um það.

Tamar var stórmerkileg kona, gáfuð og skynsöm. Þegar hún áttar sig á því hvað bróðir hennar ætlar að gera reynir hún að höfða til mennsku hans og biður hann að biðja föður þeirra um hönd hennar, hún reynir að útskýra fyrir honum af skynsemi hvernig muni fara fyrir þeim báðum ef hann nauðgar henni, hann muni verða talið hið mest varmenni og hennar líf verði eyðilagt og hún muni missa alla sæmd sína. En því miður kom allt fyrir ekki og hann gekkst við losta sínum, eftir nauðgunina fékk Amnon mikla óbeit á systur sinni og skipaði henni að snauta út. Óbeitin sem Amnon fékk á Tamar eftir nauðgunina þótti henni þó verri en nauðgunin sjálf. Það slær mig sem konu hvernig viðbröð hennar voru, en ef ég set mig í hennar spor og í þær samfélagslegu aðstæður sem hún bjó við eru viðbrögðin kannski ekkert skrýtin, hún missti allt á einu andartaki, alla framtíð sína.

En hvers vegna er þessi texti í Biblíunni okkar, hver er tilgangur hans, hvað á þessi saga að segja mér sem konu ? Konur verða fyrir ofbeldi sama af hvaða stétt þær eru. Kannski var þessi texti notaður til að halda konum niðri fyrr á öldum, kannski til að undirstrika við konur mikilvægi þess að varðveita meydóm sinn fram að giftingu. Ástæðurnar eru sjálfsagt margar.

Það er þó mikilvægt að við hér í dag séum ekki hrædd við að ræða slíka texta, kynferðislegt ofbeldi á sér stað enn í dag lokum ekki augunum fyrir þeirri staðreynd að alls staðar í heiminum verður fólk fyrir ofbeldi konur, menn og börn.

#Ég líka byltingin er bylting þetta er bylting fyrir okkur öll sem samfélag. Lokum ekki augunum fyrir ofbeldi og sögum þeirra sem verða fyrir því. Ofbeldi þrífst í skugganum, drögum sögurnar fram í dagsljósið, hlustum á þær og lærum af þeim.

Comments are closed.