Comments are off for this post

Ave María-Vortónleikar Kórs Vídalínskirkju

Kór Vídalínskirkju heldur á þessu vori tvenna tónleika. Þeir fyrri verða í Stykkishólmskirkju laugardaginn 12. maí kl. 16.00 og þeir síðari í Vídalínskirkju miðvikudaginn 16. maí kl. 20.00. Einsöngvari verður Erla Björg Káradóttir og orgelleik annast Guðmundur Sigurðsson.

Kór Vídalínskirkju sinnir öflugu tónlistarstarfi í Garðasókn, bæði í Vídalínskirkju og Garðakirkju.  Auk hefðbundinna kirkjulegra athafna tók kórinn m.a. þátt í metnaðarfullri uppfærslu á Lútherskantötu síðastliðið haust í tilefni 500 ára siðbótarafmælisins 2017.  Fyrirhuguð vorferð kórsins nú og tvennir tónleikar eru liðir í kröftugu kórstarfi sem staðið hefur í allan vetur.  Við hæfi er að kveðja vetur konung með skemmtilegri vorferð, sýna sig og sjá aðra.

Efnisskráin Kórs Vídalínskirkju samanstendur af kórverkum helguðum Maríu guðsmóður, sem á einkar vel við í Stykkishólmskirkju, þar sem altaristaflan í kirkjunni er af Maríu með Jesúbarnið.  Lögin sem flutt verða eru bæði þekkt og sjaldheyrð Maríuvers eftir íslenska og erlenda höfunda, m.a. Báru Grímsdóttur, Rachmaninoff, Gomez, Dvorák og Elgar. Sungið er á íslensku, latínu, rússnesku og spænsku.  Meðal fáheyrðra verka sem flutt verða er undurfögur Ave María eftir alþýðulistakonuna Elísabetu Geirmundsdóttur frá Akureyri, sem nefnd hefur verið Listakonan í Fjörunni.

Erla Björg Káradóttir sópran syngur einsöng á tónleikunum og Guðmundur Sigurðsson, organisti í Hafnarfjarðarkirkju, leikur á orgel, en stjórnandi verður Jóhann Baldvinsson.

Allir eru velkomnir – aðgangur á tónleikana er ókeypis.

Comments are closed.