Comments are off for this post

Predikun Sólveigar Önnu Bóasdóttur

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Fátt er yndislegra  en að hlusta á fallegan kórsöng. Takk yndislegi kvennakór. Ég er alin upp við söng og tónlist, fór að syngja í kirkjukór 16 ára. Það var í Langholtskirkju, kórstjórinn var frændi minn Jón Stefánsson, blessuð sé minning hans. Guði séu þakkir fyrir hann sem gaf íslenski kirkju svo mikið á löngum ferli. Á morgun eru tvö ár frá jarðarfarardegi hans norður í Mývatnssveit.

Ljóðið um blessuðu sveitina fögru við Mývatn sem við heyrðum sungið svo fallega hér á undan var samið af Sigurði Jónssyni frá Arnarvatni í sömu sveit. Hann nefndi það Sveitin mín og sendi til sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði og bað hann að semja lag við hæfi. Það gerði hann og er mér sagt að það þyki á meðal þess allra fegursta eftir sr. Bjarna.

Lagið hef ég sungið frá blautu barnsbeini. Það tilheyrði því að alast upp í Mývatnssveit að læra ljóðið utanbókar svo maður gæti sungið með á samkomum í Skjólbrekku. Erindin eru fjögur og inntak þeirra ákaflega keimlíkt því sem við finnum í mörgum af Davíðssálmum Biblíunnar. Samantekið má segja að ljóðið sé ein allsherjar lofgjörð til skaparans og þökk fyrir dýrlegt sköpunarverk hans. Skáldið lofar sveitina, jörðina, heimili okkar og samastað –Guðs dásamlegu gjöf. Náttúran og maðurinn líkt og renna saman, verða eitt í ljóði Sigurðar þegar hann talar um sveitina sína sem griðastað, faðm, athvarf og brjóst móður sinnar. Sveitin er líkt og hlýr líkami Guðs sem umvefur okkur í kærleika.

Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa segir í Davíðssálmum. Líka stendur þar:  Öll jörðin er full af Guðs dýrð.

Já, jörðin og náttúran endurspegla Guðs dýrð – það eru þau stef sem skáldið Sigurður frá Arnarvatni vinnur með í ættjarðarljóði sínu. Sveitin er í huga hans sem móðir og faðir. Náttúran er sem umvefjandi faðmur Guðs. Náttúran og maðurinn eru náin –  af sama meiði, bæði tilheyra sköpunarverkinu. Hjartað er barmafullt af þakklæti og auðmýkt. Þakklæti fyrir gjafir Guðs, lífið og jörðina sem er sameiginlegt heimili okkar allra.

Ágæti söfnuður. Það væri vissulega gaman að geta haldið áfram á þessum nótum. Haldið áfram að vegsama sköpunarverkið og höfund þess með því að vitna í fleiri íslensk ættjarðar- og náttúruljóð og flétta saman við ritningarstaði Biblíunnar. Af nógu er að taka.

Á sama tíma vitum við að holt er undir. Ekki er allt með felldu því heimili okkar, jörðinni og öllu því lífi sem Guð hefur skapað, er alvarlega ógnað. Ógnað af völdum loftslagsbreytinga af mannavöldum. Um þetta megum við ekki vera þögul. Kirkjan má ekki halda sér til hlés í þessu máli. Kirkjan er jú við – fólkið í samfélaginu, og okkur er ekkert óviðkomandi.

Við eigum bara eina jörð. Samt látum við Íslendingar eins og að þær séu að meðaltali fimm til sex. Vistspor Íslands er stærst í heimi – en það er ekki til að stæra sig af. Það merkir að við erum verst – ekki best.

Að lífríki jarðar sé ógnað eru ekki ný tíðindi. Vísindamenn sem rannsökuðu áhrif mannsins á lofthjúp jarðar kringum 1850 settu fram kenningar um gróðurhúsaáhrif og afleiðingar þeirra fyrir vistkerfi jarðarinnar. Árið 1965 gengu amerískir vísindamenn í fremstu röð á fund forseta Bandaríkjanna og vöruðu við afleiðingum sívaxandi magns gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Allar götur síðan hafa vísindamenn fylgst með þeim loftslagsbreytinum sem maðurinn veldur með athöfnum sínum og varað við afleiðingum þeirra.

Jarðfræðingurinn Ari Trausti Guðmundsson skrifaði grein í Fréttablaðið fyrir tveimur dögum þar sem hann segir að eftir 30 ár verði milljónir og aftur milljónir manna á flótta frá eyddum eða skemmdum vistkerfum hér á jörð. Nýjustu vísindarannsóknir sýni að alltof mikið álag sé nú þegar á lofthjúpi jarðar, álag sem stafi af athöfnum mannsins við hina ýmsu iðju tengdri vinnslu á náttúruauðlindum. Boðskapur Ara Trausta er að við séum nú þegar komin að þolmörkum. Sú staða sem er uppi nú þegar veldur gríðarlegum útgjöldum, segir Ari Trausti, og í raun er dæmið rekið með tapi, það kostar meira en það gefur í aðra hönd.

Þrátt fyrir vitneskju um hækkandi hitastig á jörðinni og afleiðingar þess halda stjórnvöld og stórfyrirtæki í ríkasta hluta heimsins víðast hvar áfram á sömu braut. Mikið vill meira er Mantran sem söngluð er  og gengur út á að við skyldum halda áfram á sömu braut eins og enginn sé morgundagurinn.

Í bókinni Grátur jarðar, grátur hinna fátæku eftir brasilíska guðfræðinginn Leonardo Boff vitnar hann í Mohandas Gandhi – indversku þjóðhetjuna sem sagði:

„The Earth is sufficient for everyone´s needs but not for everyone´s greed. Jörðin nægir til að uppfylla nauðsynlegar þarfir allra jaðarbúa en hún nægir ekki fyrir græðgi þeirra.

Þetta er svipað stef og trúarleiðtogar eins og Frans páfi í Róm og hans heilagleiki  Bartólomeus 1. – samkirkjulegi patríarkinn í Konstantínópel, hafa haldið á loft á síðustu árum.

Jörðin, systir okkar, þjáist og grætur, skrifar Frans páfi í umburðarbréfi sínu frá 2015 í aðdraganda Parísarfundarins um loftslagsmál. Orsökin er framganga mannsins á jörðinni, sérstaklega þeirra sem búa í fyrsta heiminum. Mannkyn hefur gleymt uppruna sínum segir páfi líka, gleymt að það er mold, af sama meiði og jörðin samanber Fyrstu Mósebók.

Það sem þessir merku trúarleiðtogar leggja megináherslu á er að það sem við höfum kallað þróun og framfarir á umliðnum öldum sé það ekki í raun. Svokölluð þróun hefur byggst á græðgi, ofneyslu og sóun. Ósjálfbær þróun er ekki þróun, ítreka þeir, og hvetja til sannrar þróunar en hún byggist á breyttum lífsháttum. Það sem við þurfum er bæði bylting hugarfarsins og menningarinnar.

Með tilvísun til trúarlegs tungutaks gagnrýna hinir andlegu leiðtogar stöðu mannsins innan sköpunarverksins. Það er ekki alger nýlunda að svo sé gert en hjá þeim kveður þó við mun skarpari tón og í raun umbreytta sýn á manninn. Hið hefðbundna er að gagnrýna manninn sem reynist ekki trúr og dyggur ráðsmaður yfir sköpunarverkinu. Áherslan hefur verið á skynsemi mannsins sem aðgreinir hann frá öðrum lífverum og gerir hann rétthærri þeim.

Það sem nú er undirstrikað eru órofa tengsl manns og náttúru. Maðurinn hefur ekki aðeins brugðist ráðsmannshlutverki sínu heldur hefur hann glatað þeim skilningi að hann sé hluti náttúrunnar og samverkamaður. Maðurinn og lífríkið séu jafningar og félagar og allt líf komi frá Guði, lífgjafanum. Slíku viðhorfi má finna stoð í fornum kristnum játningum, eins og Níkeujátningunni þar sem segir að Guð sé lífgefandi andi sem glæðir allt lífi.

Lútherskar kirkjur hafa sett fram samskonar boðskap að undanförnu. Sameiginlegt stef hjá öllum kristnum kirkjudeildum er að ögurstund sé upprunnin (kairos). Mannkyn verði að snúa frá villu síns vegar. Iðrun en annað orð yfir það. Kristin trú hvetji til hófsemi, einfaldleika og auðmýktar gagnvart lífinu og náttúrunni allri. Það sé rangt að rjúfa tengslin við náttúruna og setja sig yfir  hana eins og maðurinn hafi gert víðast hvar. Kristin trúarsamtök um allan heim hvetja þar með til breyttra lífshátta. Einfaldara lífs. Breytingin sem þarf að eiga sér stað er þó ekki einföld. Einkum og sér í lagi mun hún taka á okkur sem erum vön að bruðla og sóa. Sjálfbær þróun er lykilatriði í þessari breytingu því við eigum aðeins eina jörð.

Hvað eigum við þá að gera? Hvernig breytumst við? Það eru spurningar sem við verðum að takast á við sameiginlega og lýðræðislega sem heimur, þjóðir, hópar og einstaklingar. Þegar í stað. Kirkjan er hluti af breytingarferlinu. Til að breyta þurfum við von. Von er ekki sama og bjartsýni. Bjartsýni snýst um væntingar og viðhorf. Það er nauðsynlegt en ekki nægjanlegt veganesti. Hin kristna von tengist breytni. Í von tökum við til verka í oft að því virðist vonlausum aðstæðum. Í róttækri von ástundum við kærleika, miskunnsemi, mætum náunga okkar í þeim sem þurfa mest á okkur að halda hverju sinni. Hér á landi nú um stundir eru það ekki síst hælisleitendur og flóttafólk sem hafa neyðst til að flýja land sitt af ýmsum ástæðum sem oft, en ekki alltaf, tengjast loftslagsbreytingum og leita betra lífs. þau verða mun fleiri í framtíðinni.

Vonin er iðkuð í veruleikanum, í samfélaginu, líkt og Jesús starfaði á vettvangi síns samfélags, tókst á við illskuna og umbreytti henni. Vonin er ekki lofttegund sem gufar upp. Vonin er það sem við iðkum – einkum og sér í lagi á neyðar- og náðþrota tímum þegar öll sund virðast lokuð. Hin kristna von er mikilvægur aflvaki frammi fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga nú og á komandi tímum. Við erum erfingjar róttækrar kristinnar vonar og ber að mæta fórnarlömbum loftslagsbreytinga í sama anda og Jesús gerði. Við fæðum hina hungruðu, gefum hinum þyrstu að drekka, styðjum hina veiku og einmana og hýsum þá sem eiga hvergi höfði sínu að að halla.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.

 

 

Comments are closed.