Ágætu kirkjugestir og samborgarar !
„Hvað á ég að tala lengi“ spurði ég Jónu Hrönn? „Ekki lengi og ekki mikið um pólitík. Þú getur t.d. litið um öxl og spáð fyrir um árið 2108“ sagði hún. „Já en mig langar líka að tala um gleðina, þakklæti og tilfinningar. „Jæja þá í þetta sinn, þér er heimil ólin, (en hvenær kemur kaka þín og jólin) en umfram allt komdu fagnandi“ var svarið. Þannig voru samskiptin og skilaboðin, en skilaboð kirkjunnar eru alltaf skýr.
Það er heiður fyrir mig að fá að ávarpa ykkur á þessum fyrsta degi ársins. Ég óska okkur öllum gleðilegs árs 2018. Ég vil þakka fyrir góð samskipti og samvinnu á árinu 2017 og hlakka til áframhaldandi samstarfs á komandi ári. Náskylt þakklæti er gjöfin. Sælla er að gefa en þiggja stendur í merkri bók. Hin sanna gjöf er að gefa af sjálfum sér, óbeðinn og af skilningi. Áhrifamestu gjafirnar eru ekki efnislegar. Bestu gjafirnar eru m.a. umhyggja, að hlusta og vinsemd. Það er það sem ég hef í huga hér í tölu minni … að reyna að gefa eitthvað af sjálfum mér.
Nú er ég búinn að vera bæjarstjóri Garðabæjar í tæp 13 ár og hef haft mikla ánægju af og er fullur þakklætis fyrir það tækifæri að mega þjóna bæjarbúum. Skömmu eftir að ég var ráðinn bæjarstjóri heimsótti ég dr. Sigurbjörn Einarssonar heitinn biskup og spurði hvaða ráðleggingar hann gæti gefið mér á þeirri vegferð sem var að hefjast í mínu lífi. Þar sem við sátum í stofunni heima hjá honum sagði hann „ við skulum biðja saman“. Inntakið í bæninni var að ungi maðurinn (ég þá 49 ára) ætti að tileinka sér að hlusta, þjóna öðrum og sýna auðmýkt. Kveðjuorð þessa merka manns á dyraskörinni voru „ Beindu huga þínum frá sjálfum þér til annarra sem hafa þungt að bera og reyndu með framkomu þinni að styrkja kjark þeirra, von og trú“. Eitthvað hefur áunnist en margt er ólært ennþá. Lífið er þroska saga og við hættum ekki að læra þó árin færast yfir.
Í lagi og ljóði Bubba segir;
Ég er maður margra galla
ég get ekki falið þá
ég færi þér mitt hjarta
það dýrasta sem ég á.
Hér er boðskapurinn til okkar, verum einlæg, heiðarleg og sönn. Þegar ég horfi hér út í salinn sé ég mörg andlit sem ég þekki og veit af viðkynningu að viðkomandi vill láta gott af sér leiða. Til dæmis hún Sigríður Hulda sem valið hefur starf sem krefst umhyggju en hún sér glasið alltaf hálf fullt í stað þess að sjá það hálf tómt. Það smitar og skapar góða nærveru.
Þegar horft er til baka yfir árið 2017 voru margir atburðir sem gerðust sem við reiknuðum aldrei með. Sumir góðir og aðrir ekki. Á alþjóðavísu heyrum við mest um hryðjuverkaárásir, kjarnorkuógn hungursneyðir og flóttafólk. Inn á milli koma líka góðar fréttir um frið, samkomulag, hjálpsemi og manngæsku. Ef til vill er heimurinn betri en hann var? Á íslandi var það hvarf Birnu Brjánsdóttur sem snerti okkur öll , en þjóðin sýndi mikinn samtakamátt og samhygð á þeim erfiðu stundum sem leit að Birnu stóð yfir og eftir að hún fannst látin. Í viðtali við móður Birnu segir hún „Nú er sorgin og söknuðurinn það fallegasta af öllu, því þar býr tengingin við Birnu“ já sorgin og gleðin ferðast saman og við grátum vegna þess sem var gleði okkar. Að missa móður, móðursystur og systur á sama árinu var þungbært fyrir mína fjölskyldu. Þú ferð of hratt yfir Gunnar minn sagði Jóna Hrönn þegar ég tjáði henni tilfinningar mínar þess eðlis að ég vildi gjarnan finna meira til. Hún minnti mig á núið og mikilvægi þess að vera til staðar í nútíð með fulla athygli. Gott ef ég er ekki búinn að skrá mig á núvitundarnámskeið hjá Núvitundarsetrinu.is.
Annar minnistæður atburður er me-too byltingin sem á eftir að breyta varanlega okkar samfélagi til góðs, breytir hegðun og kúltúr. Umræðunni er ekki lokið, margar sögur ósagðar. Vonandi ber okkur gæfa til að draga fljótt lærdóm af því sem þar hefur komið fram.
Atburðir á íþróttasviðinu veittu okkur gleði á árinu, Strákarnir og stelpurnar okkar á stórmótum að keppa við þá bestu í heiminum, það gerir okkur stolt þessa fámennu þjóð. Það er Öskubuskuævintýri.
Á listasviðinu erum við líka að vinna sigra sem sýna okkur að við þurfum ekki að vera fjölmenn þjóð til að ná árangri, það er einstaklingurinn sem vinnur sigra með góðum stuðningi samfélagsins. Við erum hreykin og glöð yfir velgengni okkar fólks. Um gleðina er m.a. skrifað að hún sé björtust í litrofi mannlegra tilfinninga og getur sprottið fram eins og morgunfugl af hreiðri. Gleðin er einstök því hún gerir ekki greinamun á mönnum eða málefnum, hún geysist fram jafnt í sólskini sem grimmri skúr. Gleðin er vanmetin mælikvarði í lífinu, hún leynist í mörgu, kúnstin er bara að njóta hennar. Sennilega vegur viðhorf manna til sjálfra sín, annarra og hlutanna þyngst. Líkaminn þarfnast einfaldlega gleði, gleði áreynslunnar, matar, drykkjar, hvíldar og starfs. Hvað segir ekki í bókinni stóru „ fyrir því lofaði ég gleðina, því ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta, drekka og vera glaður. Bubbi minnir okkur á hversu mikilvægt það er að láta innri gildi ráða för
Ég á engan milljarð í banka
ég á ekki flottan bíl
en ég á hlátur í glöðu hjarta
og minn eiginn götustíl
syngur hann.
Við Garðbæingar voru líka hreykin og glöð þegar við í okkar litla samfélagi upplifðum árangur á hinum ýmsu sviðum bæjarlífsins. Við vorum stolt af gospelkórnum okkar í sjónvarpinu á dögunum. Já allir okkar kórar eru flottir og hafa sitt hlutverk. Það er eitthvað svo einlægt við kóra. Þar er mikilvægast að vera í takt, eins og í lífinu sjálfu vera í takt við lögmál lífsins. Hljómsveitirnar okkar og söngvarar slógu í gegn, Ómar á gítarnum, Rappararnir ungu, blásarasveitin, leikfélagið Draumar og Gróska myndlistarfélagið svo nokkur dæmi séu tekin. Við erum líka stolt af íþróttafólkinu okkar, norðurlandameisturum í fimleikum eða heimsmeistara í dansi.
Ýmsir skemmti- hátíðar- og menningarviðburðir hafa fest sig í sessi í Garðabæ og skapa með okkur góðan bæjarbrag, s.s. djasshátíð, safnanótt, þriðjudagsklassík, tónlistarveisla í skammdeginu á Garðatorgi, Góugleði, Jónsmessuhátíð með einkunnarorðin, gefum gleðjum og njótum. Þá er vert að nefna vel heppnaðar fræðslu- og sögugöngur um bæinn okkar sem er samstarfsverkefni bókasafnsins, menningarnefndar og umhverfisnefndar. Hugsum okkur auðinn sem okkar samfélag í Garðabæ á með öllu þessu góða fólki. Í þessari upptalningu má heldur ekki gleyma félögum og félagasamtökum sem vinna gríðarlega mikilvægt starf í okkar samfélagi, skátar, íþróttafélög, menningarfélög, skógræktarfélagið, Æskulýðsfélag kirkjunnar og fleiri. Þetta starf og þessi félög eru límið í okkar samfélagi. Því meira starf í þessum félögum því meira lýðræði, samkennd og félagsauður samfélagsins eykst.
Inn á hinum ýmsu stofnunum bæjarins er líka unnið frábætt starf. Það var gleðilegt þegar Flataskóli fékk á alþjóðlegum degi barna 20. nóvember sl. viðurkenningu fyrir að vera fyrsti skólinn ásamt Lauganesskóla titillinn „ Réttindaskóli Unicef en það byggir á þeirri hugmyndafræði að börn, starfsfólk og foreldrar þekki réttindi barna og beri virðingu fyrir þeim. Annað sem ég vil nefna hér er forvarnavika sem haldin er að hausti með þátttöku leik- og grunnskóla í bænum. Forvarnavikan er samstarfsverkefni mannréttinda- og forvarnanefndar, skólanna ásamt Grunnstoðum Garðabæjar sem er samstarfsvettvangur foreldrafélag í grunnskólum bæjarins. Það eru nemendur sem velja slagorð vikunnar og í ár var slagorðið „ Er síminn barnið þitt“ og var slagorðinu beint til foreldra. Það er umhugsunarefni okkar allra hvernig við tökum símann fram yfir samskipti þar sem horft er í augu viðkomandi um leið og talað er og hlustað. Já að hlusta meira og meta þögnina er gott markmið á árinu 2018
Hvort heldur sem horft er til Íslands alls eða bara Garðabæjar þá er það mín skoðun að við búum í góðu samfélagi en það er hægt að gera enn betur. Það eiga margir um sárt að binda, njóta ekki þeirra tækifæra sem lífið hefur upp á að bjóða. Við hjónin fengum svona úr í jólagjöf frá syni okkar Andra. „ Ég vil að þið lifið sem lengst“ voru skilaboðin með gjöfinni. Úrið góða mælir hreyfingu, svefn, mataræði og fleira sem tengist góðri heilsu og sett eru markmið sem úrið segir okkur hvort við séum á réttri leið með að ná. Væri það ekki góð hugmynd að gefa þjóðinni svona úr sem mælir fátækt, ójöfnuð, ranglæti, loftmengun, menntastig og biðlista eftir sjálfsagðri þjónustu. Þá gætum við sett í þjóðarúrið m.a. markmið útrýmum fátækt, hvers kyns valdníðslu og ójafnrétti á árinu 2018.
Hvað ber svo 2018 í skauti sér? Ég ætla ekki að gerast spámaður um hvað gerist í hinum stóra heimi, þar eru of margir óútreiknanlegir leikendur við völd og flóknir tímar fram undan. Það sem við vitum þó er að breytingar verða miklar t.d. á vinnumarkaði en því er spáð að innan við 30 ár verði 40% af núverandi störfum ekki til.
Á Íslandi verður ekki annað hrun líkt og fyrir 10 árum. Stjórnmálin eiga möguleika á að endurvinna sér traust og skapa meiri sátt, hætta að vera skemmtiatriði og byrja að starfa af ábyrgð. Stjórnmál eru alvörumál. Þau fengu sitt tækifæri en nýttu ekki nógu vel að mínu mati, en gefum Katrínu og Alþingi annað tækifæri, dæmum ekki fyrir fram. Opnum nýja stílabók og færum nýtt upphaf stjórnmála í hana.
Listir og menning mun áfram blómstra, nýjar stjörnur vakna. Lista- og menningarlífið á Íslandi er fjölbreytt og á heimsmælikvarða. Það má segja að listin sé komin langt fram úr stjórnmálum með sinni sköpun, einlægni og heiðarleika. Sannir listamenn fara ekki krókaleiðir eða plotta og eða gefa afslátt. Ég held að árið 2018 verði frábært á sviði lista og menningar, við flytjum meira út af list og þegar við skorum eina mark leiksins gegn Argentínu á HM í Rússlandi nær gleði okkar hámarki. Áfram Ísland. Við verðum ekki fyrir vonbrigðum því stærsti sigurinn er unnin, að komast í lokakeppnina. Sköpun og hvers kyns list, listamenn eru í auknum mæli að verða fyrirmyndir unga fólksins, í þeim birtist eljan, þrautseigjan og hið sanna. Sjáið t.d. þá Sigurð Flosason og Jóhann Baldvinsson, kennarar af Guðs náð, gangandi hljóðfæri, alltaf í takt, sannir og leggja mikið til samfélagsins.
Við eigum líka eftir að upplifa breytingar á notkun samfélagsmiðla til góðs, upplýsingagjöf til almennings mun aukast og um leið mun valdið færast nær fólki. Ný persónuverndarlöggjöf kemur til með að vernda okkur borgarana betur. Umhverfismál fá enn meira vægi. Ragnhildur Gísladóttir söngkona sagði á dögunum „ Nú er hún gamla Grýla dauð, gafst hún upp á rólunum, kannski vegna þess að börnin voru þæg, og fá mat og klæði. Ég líki gömlu Grýlu við móður jörð ef við högum okkur ekki vel í orðum og gjörðum verðum við bara étin“, hvorki meira né minna.
Kæru samborgarar við skulum hafa góðar væntingar fyrir árið 2018. Við fáum vonandi öll eitt ár í viðbót sem við getum glaðst yfir, við skulum lifa því lifandi og þakka fyrir hverja stund. Reyna að lifa í núvitund. Fyrir samfélagið Garðabæ er okkar heitasta ósk að við náum að sýna hvort öðru kærleik og vinsemd og að okkar litla samfélag geti verið fyrirmynd, eins og listamennirnir þ.e. verið í takt, heiðarlegt og skapandi.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri
P.s. Á nokkrum stöðum í ávarpinu hef ég stuðst við texta úr bókinni Gæfuspor eftir Gunnar Hersvein (um gleðina, gjafir og þakklætið) og úr bókinni Spámaðurinn eftir Kahlil Gibran (um sorgina).