Comments are off for this post

Börnum í Garðabæ boðið á tvenna orgeltónleika!

Í mars var leikskóla- og skólabörnum í Garðabæ boðið á tvenna orgeltónleika í Vídalínskirkju.
Annars vegar var orgeltónlistarævintýrið Lítil saga úr orgelhúsi og hins vegar Bach fyrir börnin. Hér eru nokkrar myndir frá þessum viðburðum.

Lítil saga úr orgelhúsi fjallar um orgelpípurnar sem búa í orgelhúsinu. Það gengur á ýmsu í samskiptum hjá orgelpípunum og Sif litla sem er langminnst, er orðin mjög þreytt á þessu eilífa rifrildi. Hún ákveður að fara í burtu úr orgelhúsinu og finna sér betri stað að búa á. Þá reynir nú heldur betur á hinar orgelpípurnar og þær fara að leita að Sif litlu.
Elstu börnum leikskólanna og yngstu börnum grunnskólanna var boðið í Vídalínskirkju fimmtudaginn 2. mars.

Höfundur sögunnar er Guðný Einarsdóttir, organisti, sem lék á orgelið, en tónlistina gerði Michael Jón Clarke. Bergþór Pálsson söngvari var sögumaður og á meðan á flutningnum stóð voru sýndar myndir eftir Fanneyju Sizemore, en sagan hefur verið gefin út á bók. Hverjum leikskóla og skóla var gefin bókin í lok stundarinnar.

Bach fyrir börnin var tónlistarstund þar sem leikin voru verk eftir tónskáldið J. S. Bach – og reyndar fleiri úr Bach-fjölskyldunni. Börnum úr 6. bekk grunnskólanna var boðið á þessa stund til að hlusta kynningu á orgelinu, sem oft er nefnt Drottning hljóðfæranna, og hlusta á glæsilegt orgel Vídalínskirkju. Þetta var í senn fræðandi stund fyrir börn úr 6. bekk grunnskólanna á orgelinu sem hljóðfæri og kynning á verkum sem samin hafa verið fyrir orgel.
Börnin voru virkir þátttakendur með því að leika á ásláttarhljóðfæri með organistanum auk þess sem tekinn var tími af hve hratt organistinn lék tvö verkanna.

Friðrik Vignir Stefánsson, organisti, lék á orgel Vídalínskirkju, sem er hannað og smíðað af Björgvini Tómassyni orgelsmið á Stokkseyri árið 2013. Björgvin mætti einnig á staðinn með lírukassa, sem hann hefur smíðað, og lék tvö lög og fékk nemendurna í lið með sér að syngja í öðru þeirra.

Comments are closed.